145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

skattar og gjöld.

667. mál
[21:46]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þeirri greiningu sem ráðuneyti hæstv. efnahags- og fjármálaráðherra hefur lagt fram hefur ekki verið andmælt sem snýst um að þau heimili sem fyrst og fremst njóta góðs af þessari reglu eru heimili í efstu tekjutíund. Þetta kemur fram í umsögnum um málið. Þetta kemur fram í greiningu ráðuneytisins sem var sérstaklega óskað eftir þegar þetta mál var til umræðu. Ég veit að hv. þingmaður samkvæmt orðum hennar er ekki endilega sammála því hversu tekjujafnandi skattkerfið á að vera. Hún er ekki sammála því að taka upp þrepaskipt skattkerfi eins og kemur fram í hennar andsvari. Ég er algjörlega ósammála því. Ég held að þetta tekjujöfnunarhlutverk skipti mjög miklu máli og hef rætt það oft og mörgum sinnum og ég tel að við hv. þingmaður séum bara alls ekkert sammála um það yfir höfuð. Ef við aðhyllumst hins vegar tekjujöfnun þá verðum við auðvitað að skoða afleiðingar slíkra breytinga.

Í greiningunni kemur fram að þetta gagnist fyrst og fremst heimilunum í hæstu tekjutíundinni. Í öðru lagi koma þar líka fram kynjasjónarmið sem væri örugglega gaman að eiga langt samtal við hv. þingmann um ef langur tími væri fyrir hendi í þessari umræðu. Við höfum innleitt það sem við köllum kynjaða fjárlagagerð og kynjaða hagstjórn. Hæstv. ráðherra hefur haldið þeirri stefnu uppi sem sett var í tíð síðustu ríkisstjórnar. Ég fagna því að hæstv. ráðherra hefur gert það. Mér finnst það bera vott um framsýni. Auðvitað eigum við að sjálfsögðu að greina áhrif þessa á kynin. Í þriðja lagi er það spurningin, sem ég hef enn ekki heyrt hv. þingmenn meiri hlutans svara, hvernig á síðan að græja þessa 3 milljarða inn í tekjuáætlun ríkissjóðs. Manni finnst dálítið merkilegt þegar við erum að ræða t.d. hvernig hægt sé að lækka þak á greiðsluþátttöku sjúklinga að hér sé hægt að taka þessa 3 milljarða og henda þeim út um gluggann með einu pennastriki hjá meiri hlutanum til þess að gæta sérstaklega að hag tekjuhærri heimila. Það er það sem er verið að gera hér.