145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

útlendingar.

728. mál
[22:32]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar í þessu máli, en hér er um að ræða heildarendurskoðun á gildandi lögum um útlendinga.

Til samræmis eru lagðar til breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Markmið þessara breytinga er að stuðla að bættri þjónustu við útlendinga og sér í lagi erlenda sérfræðinga, námsmenn, rannsakendur og umsækjendur um alþjóðlega vernd. Markmiðið er að tryggja aukna skilvirkni og gæði innan stjórnsýslunnar og hagræðingu við nýtingu þess fjármagns sem við beinum í málaflokkinn, styðja við íslenskan vinnumarkað og auka samkeppnishæfni landsins á alþjóðavísu.

Hér er um gríðarlega umfangsmikið frumvarp að ræða sem ég verð að segja að er eitt af því stærra sem allsherjar- og menntamálanefnd hefur tekist á hendur á þessu kjörtímabili. Ljóst er að undirbúningur málsins var með þeim hætti að þingmenn, allnokkrir, þekkja efni þess ágætlega enda skipaði þáverandi hæstv. innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, þverpólitíska þingmannanefnd til að vinna að undirbúningi frumvarpsins. Núverandi hæstv. innanríkisráðherra, Ólöf Nordal, hélt áfram þeirri vinnu og lagði síðan málið fram í þinginu.

Allmargar breytingartillögur liggja frammi við málið frá nefndinni, en hluti þeirra snýr að því að fyrr á þessum þingvetri samþykktum við frumvarp um breytingu á lögum um útlendinga er varða málsmeðferðarreglu fyrir kærunefnd útlendingamála og var því nauðsynlegt að leggja fram breytingartillögur vegna tilurðar þess máls sem varð að lögum áður en þetta mál hér var klárað í ráðuneytinu, þ.e. þegar frumvarpið var skrifað í ráðuneytinu var ekki tekið tillit til þess að Alþingi væri búið að lögfesta útlendingafrumvarpið hið fyrra, sem gengur undir nafninu stubburinn.

Ég ætla að nota þennan stutta tíma sem ég hef til að fara aðeins yfir helstu breytingartillögur. Við tókum öll ákvæði er varða börn og skoðuðum þau sérstaklega vegna þess að fram komu ákveðnar ábendingar um að margt mætti orða betur og stór hluti af þeim breytingartillögum sem liggja frammi varða þau ákvæði. Þær breytingar voru að sjálfsögðu unnar í samvinnu við þá aðila sem vinna í kerfinu. Til dæmis er um að ræða samræmi við orðalag í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og eins varðandi stöðu hagsmunagæslumanns barns sem í rauninni fellur brott og í staðinn nýtum við þau barnaverndaryfirvöld og þá aðila sem starfa nú þegar innan kerfisins. Hugmyndin er að styrkja starfsemi þeirra embætta og nýta þá sérþekkingu sem þegar hefur skapast á þeim vettvangi. Það eru mikilvægar breytingar.

Við leggjum líka til breytingar varðandi vinnslu persónuupplýsinga en athugasemdir bárust frá Persónuvernd sem okkur þótti rétt að taka tillit til. Það er auðvitað mikilvægt þegar verið er að vinna með viðkvæm gögn að farið sé gætilega og ég tel að þessar breytingar séu til bóta. Fram kom hjá Persónuvernd að almenn yfirlýsing um að heimilt væri að vinna með viðkvæmar persónuupplýsingar sem lá fyrir í frumvarpinu fullnægði ekki þeim kröfum sem almennt eru gerðar um meðferð viðkvæmra upplýsinga og að reglurnar þyrftu að vera skýrari varðandi samkeyrslu upplýsinga. Reglur um það þyrftu að vera vandlega útfærðar svo að samkeyrslurnar mundu ekki leiða til óhóflegrar gagnaöflunar. Við töldum rétt að taka undir þetta og lögðum til breytingar á ákvæðinu sem er að finna í 17. gr.

Við fjölluðum sérstaklega um málsmeðferðarreglur í málum um alþjóðlega vernd. Við leggjum til nokkrar breytingar varðandi það. Mig langar sérstaklega að tala um öflun upplýsinga vegna umsóknar um alþjóðlega vernd, en fjallað er um það í 26. gr. Í 3. mgr. er mælt fyrir um að vakni rökstuddur grunur hjá Útlendingastofnun um að umsækjandi sem segist vera fylgdarlaust barn sé lögráða, og ekki er hægt að staðfesta það á óyggjandi hátt, skuli gerð eins fljótt og kostur er aldursgreining. Þetta er auðvitað viðkvæmt umræðuefni. Ákvæðið ber með sér að einungis Útlendingastofnun geti komið því til leiðar að aldursgreining fari fram. Við bendum hérna á að upp geta komið tilvik þar sem vafi eða grunur varðandi aldur umsækjanda vakni á síðari stigum, eða kærunefnd útlendingamála telji þörf af einhverjum ástæðum að kalla eftir aldursgreiningu. Einnig telur nefndin, í ljósi þess að umsækjendur sem segjast vera börn séu í umsjá barnaverndaryfirvalda, rétt að þau hafi möguleika á að fara fram á aldursgreiningu og þá geti hugsast að lögregla, umsækjandi sjálfur eða talsmaður hans hafi gildar ástæður til að fara fram á aldursgreiningu. Við leggjum þess vegna fram breytingar á ákvæðinu.

Ég var í stuttu máli búin að fara yfir hagsmunagæslumann barns, því ákvæði erum við að breyta, en breytingartillögur okkar miða að því að hagsmunagæsla barns verði á hendi eins aðila, þ.e. Barnaverndarstofu, og við leggjum til eins og ég sagði áðan margar samhliða breytingar til þess að frumvarpið rými allt við þessa breyttu stöðu.

Við fjölluðum talsvert um kaflann um flóttamenn og vernd gegn ofsóknum. Í 36. gr. er fjallað um umsókn um alþjóðlega vernd sem tekin er til efnismeðferðar. Við leggjum til breytingu á ákvæðinu og bendum á að meta þurfi bæði aðstæður einstaklings og aðstæður og ástand í því ríki sem senda á hann til, en þetta er í 2. mgr. 36. gr.

Flóttamannahugtakið, um það er fjallað í 37. gr. Á fundi nefndarinnar kom fram sú afstaða Útlendingastofnunar að þessi þýðing nái ekki utan um hugtakið sem um ræðir þar sem hugtakið, eins og það er skilgreint í þjóðarétti, vísar til árása þar sem ekki er gerður greinarmunur á hernaðarlegum og borgaralegum skotmörkum. Jafnframt var bent á að slíkar árásir þurfa ekki að vera handahófskenndar. Með hliðsjón af þessu leggjum við til breytingar á ákvæðinu og líka á fyrirsögn ákvæðisins.

Við fjölluðum talsvert um ákvæðin er varða dvalarleyfi vegna atvinnuþátttöku og ég vil sérstaklega vekja athygli á 62. gr. þar sem fjallað er um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki. Við meðferð frumvarpsins í nefndinni kom fram að einstaklingar sem myndað hafa tengsl við samfélagið og fyrirtækin sem þeir vinna fyrir hafi þurft að fara úr landi vegna þessa þrátt fyrir áframhaldandi skort í greininni, vegna þess að dvalarleyfi samkvæmt ákvæðinu veita ekki rétt til ótímabundins dvalarleyfis. Þurfa þá viðkomandi einstaklingar að dveljast erlendis í tvö ár samfellt áður en þeim er gert kleift að fá atvinnuleyfi að nýju. Að mati nefndarinnar eru framangreindar takmarkanir á skjön við stefnu stjórnvalda um bætt starfsskilyrði fyrirtækja og einnig þurfi að hafa í huga þarfir vinnumarkaðarins til lengri tíma litið. Leggur nefndin því til þá breytingu að dvalarleyfi sem veitt er á grundvelli 62. gr. geti orðið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Við leggjum að sama skapi til breytingu á lögum um atvinnuréttindi útlendinga.

Við fjöllum um dvalarleyfi vegna náms. Þar eru nokkrar lagatæknilegar breytingar. Við fjöllum um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar. Í 4. mgr. 69. gr. er fjallað um skilyrðin fyrir dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar og þar segir að ekki skuli veita dvalarleyfi til lengri tíma en eins árs nema þegar sá fjölskyldumeðlimur sem umsókn byggist á dvelji hér á landi á grundvelli starfs sem krefst sérfræðiþekkingar. Nefndin telur að ekki eigi að takmarka gildistíma dvalarleyfis með þessum hætti og leggur til breytingar á ákvæðinu.

Við fjöllum sérstaklega um dvalarleyfi fyrir börn, en í 71. gr. frumvarpsins er ákvæði þar sem dvalarleyfi til barna eru skýrð og réttindi þeirra tryggð. Í 1. mgr. er kveðið á um að heimilt sé að veita barni yngra en 18 ára dvalarleyfi á grundvelli dvalarleyfis eða heimildar foreldris til búsetu. Nefndin leggur til þá breytingu að ákvæðið eigi einnig við 63. gr. frumvarpsins er mælir fyrir um dvalarleyfi fyrir íþróttafólk. Við bætum því við.

Við fjölluðum talsvert um frávísun og brottvísun og leggjum til ákveðnar breytingar á 7. og 8. mgr. 104. gr. Í 7. mgr. segir að lögreglan annist framkvæmd frávísana og brottvísana. Fram kom á fundum nefndarinnar að nú standi yfir samningsgerð við IOM þar sem verið er að semja við þá aðila að framkvæma flutninga úr landi fyrir þá sem vilja eða fara sjálfviljugir. Útlendingastofnun benti á að ástæða væri til að heimila þeim að annast hluta þeirra frávísana sem upp koma ef ákveðin skilyrði eru uppfyllt. Slíkir samningar fela í sér mikla réttarbót og hagræði fyrir útlending þegar um er að ræða að hann annaðhvort unir ákvörðun um brottvísun eða frávísun eða hann er umsækjandi um vernd sem dregur umsókn sína til baka. Þetta er auðvitað mikilvægt. Við tökum þess vegna undir þau sjónarmið og leggjum til ákveðnar breytingar þar að lútandi.

Fjallað var talsvert um reglugerðir og gildistöku og bent var á að í mörgum ákvæðum frumvarpsins setji löggjafinn framkvæmdarvaldinu ekki skýr mörk heldur sé framkvæmdavaldinu falið að setja hinar efnislegu reglur og skilyrði. Við áréttum í nefndaráliti okkar, vegna þess að þetta er mikilvægt, að löggjöf um útlendinga megi flokka í tvennt, þ.e. EES/EFTA-borgara og svo þriðjaríkisborgara, en löggjöfin nær einnig yfir mjög marga málaflokka, bæði áritanir, leyfi, hælismál og brottvísanir. Rétt er að mati nefndarinnar að hægt sé að laga málsmeðferðarreglur að breyttum aðstæðum með skjótum hætti.

Þetta er í fljótu bragði yfirlit yfir þær helstu breytingar sem við gerum á frumvarpinu. Ég vil taka fram að samhliða vinnslu málsins fjölluðum við um tillögu til þingsályktunar um stofnun embættis umboðsmanns flóttamanna frá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, sem er held ég á mælendaskrá og mun kannski fjalla aðeins um það nánar. Við tökum fram varðandi þá tillögu að við teljum að undirbúning eigi að hefja með því að kanna kosti og þörf á að — eða tillagan kveður á um að stofna embætti umboðsmanns flóttamanna á Íslandi, svo ég komi þessu nú rétt frá mér, en undirbúningur verði hafinn með því að kanna kosti og þörf á að stofna sérstakt embætti umboðsmanns flóttamanna. Við fengum gesti og aðeins umsagnir út af því. Þingmenn spurðu þá sem höfðu áhuga á að tjá sig um það mál jafnframt. En við tökum ekki afstöðu að svo stöddu til markmiðs þeirrar tillögu en hvetjum til þess að hlutaðeigandi ráðuneyti láti kanna hvort sú leið sem hér sé lögð til sé fýsileg og rétt. Bara rétt að halda því til haga.

Við fjölluðum sérstaklega um hlutverk Þjóðskrár Íslands við framkvæmd þessara laga, en Þjóðskrá Íslands hefur hlutverki að gegna og tekur ákvarðanir um rétt EES- og EFTA-borgara til dvalar á Íslandi umfram þrjá mánuði og ef skilyrði eru uppfyllt þá gefur stofnunin út skráningarvottorð. Við teljum rétt að skoða þurfi nánar hvernig hlutverk Þjóðskrár Íslands er skilgreint í lögum er varða erlenda ríkisborgara. Einnig þurfi að fara yfir verkaskiptingu milli Þjóðskrár Íslands og Útlendingastofnunar hvað varðar þennan málaflokk. Nefndin beinir því til innanríkisráðuneytisins að hefja slíka vinnu.

Við reifum líka í nefndaráliti okkar ýmis atriði sem þarf að skoða betur. Það er alveg ljóst að í þeim síbreytilega heimi sem við störfum í verða þessi lög alltaf til skoðunar og við þurfum auðvitað að halda vöku okkar, fylgjast vel með og vera klár í að grípa inn í ef eitthvað má betur fara. Við leggjum til allnokkrar breytingar lagatæknilegs eðlis auk þeirra sem eru reifaðar í nefndaráliti og í sérstöku breytingarskjali sem hér liggur frammi og við leggjum til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til.

Undir nefndarálitið skrifa sú sem hér stendur, Guðmundur Steingrímsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Willum Þór Þórsson, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, með fyrirvara, Helgi Hrafn Gunnarsson, með fyrirvara, Jóhanna María Sigmundsdóttir og Vilhjálmur Árnason.

Ég vonast til að málið fái góðar viðtökur og brautargengi í þinginu.