145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2016--2019.

764. mál
[23:54]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hennar um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2016–2019. Ég kveð mér fyrst og fremst hljóðs til þess að ítreka enn frekar það sem fjallað er um í kafla D um kynbundið ofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum. Mig langar að minna á að fatlaðar konur eru því miður í stóraukinni hættu á því að vera beittar ofbeldi, bæði í nánum samböndum og í fjölmörgum öðrum aðstæðum. Það er ekki sérstaklega minnst á fatlaðar konur hér, enda er þessi grein almenns eðlis. Það er reyndar komið inn á mál þeirra á bls. 15 í greinargerðinni, sem mér finnst mjög gott. Auðvitað eiga almennar aðgerðir að ná til allra kvenna og þá líka fatlaðra kvenna, en raunin er hins vegar því miður sú að almennu ákvæði ná þegar á reynir ekki til fatlaðs fólks. Það má í því samhengi benda á að það er m.a. þess vegna sem við erum með sáttmála á borð við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það er í raun ekki verið að færa fötluðu fólki nein ný réttindi heldur verið að setja í samhengi og ítreka réttindi þeirra.

Á síðustu missirum hafa komið upp alvarleg ofbeldismál sem hafa vakið samfélagið til vitundar um það ofbeldi sem fatlað fólk, og kannski sérstaklega fatlaðar konur, eru beittar. Því langar mig, eins ágætur og þessi kafli í rauninni er, að ítreka og halda til haga að það verður að hafa þennan hóp sérstaklega í huga. Það eru til alls konar stuðningsgögn, eins og ágæt skýrsla sem ég hef áður vísað í sem fjallar um ofbeldi gegn fötluðum konum og aðgengi þeirra að stuðningsúrræðum. Í þessari grein er fjallað um samstarfsverkefni þriggja ráðherra um aðgerðir gegn ofbeldi og listað upp hvað það verkefni eigi að fela í sér. Þar er í d-lið fjallað um að auka þjálfun og menntun innan réttarvörslukerfisins. Þetta er að sjálfsögðu gott en þá vil ég aftur ítreka að þarna þarf að hafa fatlaðar konur í huga, því að líkt og kom fram í svari við fyrirspurn minni til innanríkisráðherra fyrr á þessu löggjafarþingi þá er það svo að samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra hafa ekki verið settar samræmdar verklagsreglur af hálfu embættisins um viðbrögð lögreglu þegar upp kemur grunur um ofbeldi gegn fötluðu fólki. Það eru ekki í gildi sérstakar vinnu- eða verklagsreglur um viðbrögð þegar upp kemur grunur um ofbeldi gegn fötluðu fólki. Það kemur fram að í grunnnámi lögreglunema sé komið inn á málefnið í nokkrum fögum en það má lesa út úr svarinu að ekki sé farið mjög djúpt ofan í þennan hóp. Hins vegar er sérstaklega tekið fram í svarinu að vandaður undirbúningur lögreglu fyrir skýrslutöku sé sérstaklega mikilvægur þegar mál varðar til að mynda vitni eða sakborninga sem eru með þroskahömlun og það sama gildir auðvitað ef sá sem beittur er ofbeldinu er með þroskahömlun. Að lokum segir þar sem fjallað er um menntun dómara að enginn möguleiki sé að svara því til hvort einhverjir dómarar hafi sótt sér fræðslu um ofbeldisbrot gegn fötluðu fólki en tekið fram að fagráð um endurmenntun dómara hafi ekki haldið sérstök námskeið þar um.

Þarna held ég að sé alveg fullt af atriðum sem verði að hafa í huga og halda til haga þegar farið er í þetta samstarfsverkefni. Það er þetta sem ég vildi koma inn á í ræðu um málið. Ég held að það sé vilji hæstv. ráðherra og vilji okkar á þingi að málinu séu gerð góð skil og því haldið til haga í kjölfar þeirrar miklu samfélagslegu vakningar sem varð í kjölfar fréttaflutnings af ofbeldi sem fatlaðar konur hafa verið beittar og þeirrar umfjöllunar sem málið fékk á sínum tíma á þingi. Ég er hins vegar hrædd um að ef það er ekki sérstaklega ítrekað geti það gleymst og farið forgörðum. Þó svo að hinar almennu aðgerðir eigi að ná til allra kvenna er það því miður oft reynslan að það er ekki svo þegar á reynir. Það er mitt innlegg í þessa umræðu.