145. löggjafarþing — 123. fundur,  2. júní 2016.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda 2016--2019.

765. mál
[00:31]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það gleður mig að heyra jákvæð viðbrögð ráðherrans við ræðu minni og að ráðherrann sé sammála mér um að þessa setningu þurfi að skoða, því að líkt og ég sagði áðan þá tel ég að vilji ráðherrans í þessum málum þegar kemur að stuðningi við konur sem hafa búið við heimilisofbeldi sé alveg heill og skýr. Orðalagið er hins vegar óheppilegt. Ég treysti hæstv. ráðherra og nefndinni sem fær málið til sín algjörlega til að laga þetta þannig að þegar þingsályktunartillagan kemur til endanlegrar afgreiðslu verði búið að snúa orðalaginu þannig að enginn þurfi að velkjast í vafa um að tilgangurinn sé að efla og styðja konur af erlendum uppruna sem hafa búið við heimilisofbeldi, það sé á engan hátt verið að koma sökinni á ofbeldinu yfir á þær, það tel ég að enginn vilji gera í þessu máli. Þess vegna þurfum við að breyta orðalaginu.