145. löggjafarþing — 123. fundur,  2. júní 2016.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda 2016--2019.

765. mál
[00:35]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp til að fagna því að þessi þingsályktunartillaga sé komin fram. Hér er fjallað um mál sem er samfélagi okkar mikilvægt. Það er brýnt að við sinnum málefnum innflytjenda vel. Ég fagna því hversu skýrt þetta er sett upp og greint niður. Við höfum svo sannarlega þörf fyrir að einstaklingar bætist við í okkar samfélag, við eigum að taka þeim einstaklingum fagnandi sem vilja setjast hér að hjá okkur og verða virkir þátttakendur. Ég tel það afskaplega þarft hvernig þetta er sett fram hér, að leggja áherslu á að draga fram tækifæri sem felast í ólíkum menningarlegum bakgrunni landsmanna og nýta þekkingu innflytjenda til að efla íslenskt samfélag. Vissulega hefur samfélag okkar oft verið ansi einsleitt og það er styrkur fyrir samfélagið að það verði sem fjölbreyttast, við erum jú í alþjóðlegum tengslum, og gott að stuðla að því að við verðum sem flest virk í samfélaginu, líka allir þeir sem hingað leita, það er okkur ómetanlegt.

Þá komum við að ólíkum bakgrunni hjá fólki. Það er mjög mikilvægt að vel sé tekið á móti fólki og rétt að því staðið. Mig langar að minnast á verkefni sem ég fékk kynningu á, þ.e. móttöku flóttamanna á Akureyri. Það verkefni hefur tekist afskaplega vel. Það sýnir hve vel getur tekist til þegar samfélagið er tilbúið og það er það vissulega á Akureyri. Þar og í nærsveitunum tóku allir fullan þátt í því og menn voru virkilega viljugir og eru það, það hefur ekkert lát orðið á því. Það er til stakrar fyrirmyndar hvernig að því hefur verið staðið öllu þar saman. Áhugi heimamanna, þeirra sem búa fyrir á staðnum, og ánægja með að vera að fá nýja íbúa hefur sannarlega komið í ljós með því að fólk hefur sýnt áhuga á þessu málefni, boðið fram aðstoð, komið fram sem sjálfboðaliðar á ótrúlegustu stöðum og við öll tækifæri og virkilega opnað samfélagið fyrir nýjum íbúum. Það er verulegt fagnaðarefni og gaman að sjá hvernig börnin eru að falla inn í skólana, fólk kemur inn á vinnustaðina og þetta er að takast vel af því að þarna eru allir að taka ábyrgð á verkefninu sem slíku og taka til sín þá ábyrgð sem okkur ber að gera. Ég vildi vekja athygli á þessu einstaklega góða framtaki þar og hvernig það hefur gengið. Það verkefni er eitt af þeim sem má alveg horfa til og líta til hvernig til hefur tekist.

Þá komum við að því hvernig þetta er greint niður í framkvæmdaáætluninni. Í kafla A.3. er talað um hvatningarverðlaun sem ganga út á það markmið að stuðla að faglegri, vandaðri og upplýsandi umfjöllun um innflytjendur og þátttöku þeirra í samfélaginu. Ég held að þetta sé gríðarlega mikilvægur þáttur eins og kemur fram í lið A.4, sem fjallar um fræðslu til starfsfólks ríkis og sveitarfélaga. Það hlýtur að vera grunnurinn að öllu saman að hægt sé að miðla þekkingu og reynslu á milli fólks sem vinnur að þessu verkefni og hvernig við getum haldið takti í því.

Hjá kynningaraðilunum á Akureyri kom fram að ekki mætti koma bil í þessu ferli, að ekki mætti líða of langur tími á milli þess sem tekið er á móti hópum. Það er eitthvað sem við þurfum að velta fyrir okkur: Hvað erum við sem samfélag tilbúin til að taka á móti mörgum hópum, hversu títt og hversu þétt má það vera til að okkur takist að gera það vel og við séum tilbúin að vinna að því áfram? Það er einn vinkill í þessu máli sem við þurfum að skoða þannig að þetta falli allt saman vel og öllum líði vel með þessa framkvæmd. Ég held að við eigum alveg að geta náð þeim markmiðum eins og hefur sýnt sig og á fleiri stöðum. Lýðræðisleg þátttaka innflytjenda og samstarf félags- og hagsmunasamtaka innflytjenda er mjög mikilvægt, að fólk kynnist innviðunum og finni sig strax vera þátttakendur og sjái hvernig það getur haft áhrif á sín hagsmunamál eins og hverjir aðrir borgarar í þessu landi.

Þá er talað um samstarf á milli stofnana eins og fram hefur komið hér. Það er gríðarlega mikilvægt. Ég tek undir það sem fram hefur komið í þeim efnum. Það byggir á því að innflytjendur fái sem bestar upplýsingar sem fyrst eftir komuna til landsins og hafi auðvelt aðgengi að öllum upplýsingum og þeim leiðum sem þeim eru færar, hvaða leiðir hægt sé að fara til að afla sér upplýsinga og verða þátttakendur.

Ég vil taka undir það sem hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir sagði hér áðan um móttökuna og orðalagið í grein sem fjallar um stuðning við konur sem hafa búið við heimilisofbeldi, en ég treysti nefndinni og því fólki sem vinnur innan þingsins og mun taka við þessari þingsályktunartillögu fullkomlega til að vinna að þessum málum öllum og að það fari vel. En ég tek því fagnandi að þetta sé komið hér fram og vona að við berum gæfu til að vinna sem best úr þessum málum. Ég fagna því að samfélagið okkar verði fjölbreyttara og fjölþættara.