145. löggjafarþing — 123. fundur,  2. júní 2016.

framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda 2016--2019.

765. mál
[00:43]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F) (andsvar):

Ég þakka hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra fyrir andsvarið og tek undir sjónarmið hennar. Það er gríðarlega mikilvægt að samfélögin séu tilbúin, að við undirbúum okkur af því að það er fáfræðin sem gerir okkur fordómafull og ef okkur skortir þekkingu og við nálgumst ekki fólkið sem er að koma. Við verðum að átta okkur á því að við þurfum að tala saman til að byggja upp samfélög og við þurfum að eiga samskipti.

En ég get sagt frá því að í sveitarfélaginu sem ég bý í var ég spurð fyrir nokkrum árum, en þar sá ég um fullorðinsfræðslu: Eru ekki margir útlendingar á Vopnafirði? Ég sagði: Nei, það eru eiginlega engir útlendingar. Svo fór ég að hugsa málið. Jú, þá gat ég talið upp marga einstaklinga, en þeir einstaklingar komu beint inn í fjölskyldur, höfðu sitt tengslanet og fengu leiðsögn um þau atriði sem okkur virðast vera svo lítil og skipta litlu máli, fengu leiðsögn beint frá fjölskyldunum um hvað maður hefur í matinn, hvernig maður fer á ýmsa staði og aðra einfalda hluti sem við erum ekki að velta fyrir okkur. Þetta skiptir held ég gríðarlega miklu máli, hvernig við eigum að bera okkur að, hvað er eðlilegt að koma með í skólann og hvenær getur maður farið í heimsókn eða hvað er eðlilegt að gera í samskiptum við krakkana í bekknum og hvað ekki, hvernig við leikum okkur eftir skóla og annað. Þá eru dæmi um að börnin skildu ekkert í því af hverju stúlkan sem flutti í samfélagið vildi aldrei leika við þau eftir skóla. Það var vegna þess að hún þekkti það ekki úr sínu samfélagi sem hún bjó áður því að þá mátti ekki vera úti, það var svo hættulegt. Það var dásamlegt að fylgjast með uppgötvuninni sem varð hjá barninu þegar hún áttaði sig á því að hún var frjáls, hún gat verið úti, það var ekki hættulegt. Hún þurfti bara að láta vita af sér. Það eru slíkir hlutir sem skipta máli og hjálpa okkur til að gera samfélag okkar ánægjulegt.