145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

málefni hælisleitenda.

[10:37]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Enn á ný er talsverð umræða í samfélaginu um hvernig farið er með hælisleitendur og aðra sem koma hingað í neyð í leit að skjóli. Sú umræða er því miður ekki ný og ekkert bendir til þess að hún sé á leiðinni burt nema hugsanlega ef mjög kjánalegir vankantar, að mínu mati, eru lagaðir í gildandi lögum. Lögin verða vonandi löguð að einhverju leyti í frumvarpi því sem við greiðum atkvæði um á eftir við 2. umr. Í þessum málaflokki er það einhvern veginn þannig að hver bendir á annan.

Ég hef oft haft á orði að ekki sé við Útlendingastofnun að sakast, það sé við lögin að sakast, að lögin séu gölluð. Ég er þeirrar skoðunar og vil meina að þau verði áfram gölluð eftir að frumvarpið sem við greiðum hér atkvæði um á eftir verður að lögum. En hins vegar verður mér sífellt ljósara að það er fleira sem er gallað en lögin, það er líka hvernig stofnanir eins og Útlendingastofnun vinna. Útlendingastofnun bendir á kærunefnd útlendingamála. Kærunefnd útlendingamála bendir á Útlendingastofnun og allt er það í einhverju pólitísku, ég ætla ekki að segja tómarúmi, en einhvers konar þoku. Mér hefur þótt vanta á að tekin sé skýr pólitísk afstaða gagnvart því að nýta þær heimildir sem eru í lögum sem eru til bóta fyrir mál skjólstæðinga Útlendingastofnunar. Hins vegar virðist vera að allar mögulegar heimildir sem til staðar eru séu nýttar til þess að ýta fólki frá ferlinu.

Mig langar að spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvort gerð hafi verið athugun á því hvort sú tilhneiging að ýta fólki frá ferlinu kosti meira eða minna en einfaldlega að taka þessi mál til efnismeðferðar.