145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

málefni hælisleitenda.

[10:39]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Eins og hv. þingmaður veit hefur málaflokkur útlendinga vaxið gríðarlega mikið og hratt á undanförnum mánuðum og missirum. Málefni hælisleitenda hafa tekið á sig allt aðra mynd á örfáum mánuðum miðað við það sem við þekktum áður. Í því umhverfi er rík skylda á ráðherra útlendingamála að líta til allra málsmeðferðarreglna og gæta að því að við framfylgjum þeim lögum sem hér eru sett með það alltaf í huga að vilji Alþingis hafi verið skýr um að ráðherra skuli vera utan sviga þegar kemur að einstökum málum og líta á málin almennt.

Í því skyni hefur verið unnið að verulegum umbótum í útlendingamálum að undanförnu í því andrúmslofti sem við þekkjum og miklu álagi. Við höfum verið að yfirfæra þær reglur sem ráðuneytið hefur sett. Við höfum líka verið að huga að því hvers vegna reglur hafa ekki verið settar á grundvelli gildandi laga sem hægt væri að gera, þ.e. við höfum reynt að líta þannig á að við náum því markmiði okkar að ljúka málum hratt þannig að einstaklingar þurfi ekki að vera hér í langan tíma og bíða niðurstöðu, þess sem verða vill. Eins og þingheimur veit hafa líka verið gerðar breytingar á löggjöfinni sjálfri, enda eru þau lög opin og til meðferðar nú í þinginu.

Ég held því fram að þær stofnanir sem um þessi mikilvægu mál fjalla fari að þeim lögum sem hér eru sett. Ég tek ekki undir það með hv. þingmanni að þar séu menn með sjónarmið í aðra áttina frekar en hina. Ég held að menn reyni að horfa hlutlægt á málin (Forseti hringir.) og leggi sig alla fram í því að fjalla um þennan málaflokk með vönduðum hætti.