145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

fjöldi kvenna í löggæslu og utanríkisþjónustu.

[10:44]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Það eru tvær fréttir sem vakið hafa athygli mína nýlega. Í frétt í Kjarnanum 8. mars er sagt frá tilmælum sem nefnd Sameinuðu þjóðanna beindi til íslenskra stjórnvalda um að „grípa tafarlaust til aðgerða til að fjölga hratt konum innan lögreglunnar, í Hæstarétti og í stöðum sendiherra“. Ég man að fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra skipaði fjóra karla í stöður sendiherra þegar hann skipaði fyrst í embætti sendiherra. Það vakti athygli og ég vona að menn séu farnir að snúa við blaðinu hvað það varðar. Við vitum um stöðuna í Hæstarétti og hún liggur líka fyrir innan lögreglunnar.

Önnur frétt af sama meiði er af mbl.is þar sem talað er um löggæslu á Evrópumótinu í fótbolta í sumar. Lögreglumennirnir, sem eru átta, eru allir karlkyns. Ekki er gerð krafa um sérsveit eða að lögreglumenn eigi að bera vopn og í rauninni er fullkomlega óskiljanlegt af hverju konum er ekki boðið að taka þátt í þessu. Ég trúi því ekki að engar lögreglukonur geti tekið þátt í þessu verkefni. Ég hef mínar upplýsingar af frétt á mbl.is og umræðu sem orðið hefur í framhaldinu. Mér finnst þetta ámælisvert vegna þess að það útskýrir líka launamuninn sem er á milli kynjanna ef karlarnir eru sendir í svona verkefni og fá þá dagpeningana á móti.

Í fréttinni segir að allir lögreglumennirnir komi frá ríkislögreglustjóra og þar sem ekki hafi tekist að fá lögreglukonur frá ríkislögreglustjóra í hópinn hafi verið leitað eftir mönnum sem eru vanir alþjóðalögreglusamvinnu og vanir að vinna erlendis. Ég leyfi mér að fullyrða að það eru til lögreglukonur sem hefðu verið tilbúnar að taka þetta verkefni að sér og eru hæfar til þess. Ég vil vita hvað hæstv. ráðherra finnst um þetta, bæði varðandi lögreglumennina og þá kröfu að konum í Hæstarétti verði fjölgað hratt.