145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

fjöldi kvenna í löggæslu og utanríkisþjónustu.

[10:46]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Það kom mér jafn mikið á óvart og hv. þingmanni að í þessum hópi skyldu einungis vera karlar. Það var skilningur minn að verið væri að leita jafnt að körlum sem konum og ég held að það hafi verið hugsunin. Ég hafði ekki hugmyndaflug í það sjálf að niðurstaðan gæti orðið þessi þannig að það kom mér fullkomlega á óvart. Þetta er ákvörðun sem ríkislögreglustjóri tekur. Ráðuneytið kom ekkert að henni, en ég ítreka það sem ég hef sagt hér að hugmyndaflug mitt brestur þegar kemur að þessu.

Síðan vil ég segja það almennt að við höfum verið að reyna að fjölga konum innan lögreglunnar. Við sjáum það vel hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að þar hefur konum fjölgað. Við eigum að sjálfsögðu langt í land á þessu sviði, þetta hefur verið karlastétt í gegnum tíðina.

Varðandi Hæstarétt hygg ég að ég hafi svarað fyrirspurn frá hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur um svipað efni þegar við ræddum um reglur og möguleika á skipan dómara og skipanina nú í vetur. Við sjáum að konum er að fjölga í dómarastétt hægt og bítandi. Ef farið er yfir héraðsdómstólana er alveg greinilegt að konum er að fjölga þar.

Nú hefur Alþingi samþykkt lög um breytingar á dómstólaskipan þar sem heilt millidómstig verður sett á í landinu. Ég hygg að hvaða ráðherra sem í þessum stól situr á komandi mánuðum og missirum hljóti að sjá að þar skiptir mjög miklu máli að til þessa sjónarmiðs sé litið.