145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

sala Landsbankans á eignarhlut sínum í Borgun.

[10:50]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Enn einu sinni neyðist ég til að koma hér í ræðustól Alþingis til að ræða við hæstv. fjármálaráðherra um tvær fyrirspurnir mínar, annars vegar til skriflegs svars um sölu á eignarhlut Landsbankans í Borgun frá því í febrúar — alls ófullkomið svar barst við þeirri skriflegu fyrirspurn. Seint og um síðir kom munnlegt svar við þeim spurningum. Í þeirri umræðu kom fram að hæstv. fjármálaráðherra lofaði Alþingi skýrslu og í framhaldi af því umræðu um þessa dularfullu sölu bankans á Borgun. Því kem ég hér til að spyrja annars vegar: Hvað líður skýrslunni? Og umræðan, hvenær kemur hún? Ég þarf ekki að taka fram, virðulegi forseti, stjórnarskrárvarinn rétt okkar þingmanna til að leggja fram fyrirspurnir og ráðherra að svara þeim.

Málið er alltaf að verða alvarlegra og alvarlegra í mínum huga. Í munnlega svarinu sagði hæstv. fjármálaráðherra að hann kannaðist ekki við verðmætamat upp á 19–26 milljarða kr. og hefði ekki séð það. Í Morgunblaðinu kom fram á sínum tíma að í nýju virðismati, sem KPMG hefur unnið fyrir stjórn Borgunar, er fyrirtækið metið á 19–26 milljarða kr., sem segir okkur að ef þetta er rétt þá hafi þeir sem keyptu þessi 31,2% hagnast um 4–6,5 milljarða á þessum stutta tíma og Landsbankinn orðið af, ríkissjóður, 6–8,5 milljörðum kr. Þar að auki var í fyrsta skipti í fyrra greiddur út arður og líka í hittiðfyrra. Þannig að þeir sem keyptu þennan 31,2% hlut hafa fengið 1 milljarð í arð, eða helminginn af kaupverðinu.

Því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra, virðulegi forseti: (Forseti hringir.) Hvenær kemur skýrslan? Hvenær verður umræðan? Ég spyr enn einu sinni: (Forseti hringir.) Hvaða upplýsingar hefur hæstv. fjármálaráðherra um virðismatið á fyrirtækinu þegar salan fór fram?