145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

sala Landsbankans á eignarhlut sínum í Borgun.

[10:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er meira en sjálfsagt að veita svör við þeim spurningum sem beint er til mín vegna þessa máls. Ég hef ávallt reynt að bregðast við þeim eins fljótt og auðið er. Fyrir liggur skriflegt svar sem hv. þingmaður var ekki sáttur við í öllum atriðum. Af þeirri ástæðu hef ég óskað eftir því að tekin verði saman enn ítarlegri svör, en vinnan við það stendur yfir. Ég hef boðað að það sé sjálfsagt að flytja sérstaka skýrslu um það þegar ég hef fengið þær upplýsingar endanlega. En eins og menn væntanlega gera sér grein fyrir kemur það í hlut Bankasýslunnar að bregðast við því erindi ráðuneytisins.

Við höfum sömuleiðis tekið hér sérstaka umræðu um þessi mál þar sem ég hef lýst sjónarmiðum mínum. Varðandi verðmatið sem hv. þingmaður vísar til væri mjög fróðlegt að fá að sjá það ef hann hefur það undir höndum. Ég hef aldrei séð þetta verðmat. Eina sem ég hef sagt um það er að mér er ekki kunnugt um að það sé opinbert þannig að ég get eiginlega ekki neitt tjáð mig um það. Það getur vel verið að það hafi einhvern tímann verið skrifað um að það væri til, skrifað um það í Morgunblaðinu, en mér er ekki kunnugt um það. Þeim mun síður er ég reiðubúinn til að hafa einhverja skoðun á því mati. En höfum í huga og við skulum hafa það með í umræðunni að ríkissjóður, í gegnum eignarhald sitt á Íslandsbanka, er með óbeina meirihlutaeign í Borgun og nýtur væntanlega góðs af því ef virði félagsins er meira en áður var talið.

Það hefur svo margsinnis komið fram af minni hálfu að ég hefði kosið að allt þetta ferli hefði verið opnara, gegnsærra, og mér sýnist að bankinn sé kominn á þá skoðun sömuleiðis. Með því hefði hagsmunum ríkisins verið betur borgið og eigendastefnunni betur fylgt.