145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

almennar félagsíbúðir.

435. mál
[11:17]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er ánægjuefni að frumvarp þetta er að verða að lögum. Það er að verða að lögum vegna þess að velferðarnefnd hefur lagt gríðarlega vinnu í það í vetur að lagfæra málið og nánast endursmíða með viðamiklum breytingartillögum bæði við 2. og 3. umr. í góðri sátt og góðri samstöðu. Þess var þörf vegna þess að frumvarpinu var í verulegum mæli áfátt eins og það kom fram. Snemma kom í ljós í vinnu nefndarinnar að ýmsir stórir framkvæmdaraðilar á þessu sviði hefðu ekki treyst sér til að starfa samkvæmt þeim lögum sem orðið hefðu ef frumvarpið hefði gengið óbreytt í gegn. Þetta tel ég að sé ástæða til að taka fram og hrósa Alþingi sem hefur staðist prófið í þessu vandasama máli og gert það með miklum sóma. Í mikilli einingu hefur velferðarnefnd unnið málið til farsællar niðurstöðu að mínum dómi. Mikið má hæstv. félagsmálaráðherra og hæstv. ríkisstjórn vera þakklát fyrir að nú er á (Forseti hringir.) Íslandi málefnaleg og sanngjörn stjórnarandstaða (Gripið fram í: Heyr, heyr.) sem hjálpar góðum málum í gegn.