145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

almennar félagsíbúðir.

435. mál
[11:18]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langar að ítreka og taka undir og útskýra af hverju mér finnst skringilegt að við nefnum frumvarpið bara sem almennar íbúðir í staðinn fyrir almennar félagsíbúðir. Það er enginn skömm að því að nota það orð. Það er rétta orðið yfir hvað frumvarpið á að gera.

Mig langar líka að taka undir orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Nú hef ég verið í stjórnarandstöðu alla mína tíð á Alþingi. Ég verð að segja að vinnan sem stjórnarandstaðan hefur lagt í þessi mál ríkisstjórnarinnar hefur verið mjög góð. Það hefur verið mjög gott samstarf á milli minni hluta og meiri hluta í mjög veigamiklum og stórum málum. Mér finnst allt í lagi að halda því til haga. Einnig er mikilvægt að hrósa hv. formanni nefndarinnar, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, því að hún hefur haldið utan um þetta og fleiri rosalega stór mál og mikilvæg. Við megum ekki gleyma því að þingið getur virkað vel og sér í lagi er mikilvægt að við stöndum saman að (Forseti hringir.) málum er lúta að þjóðhagslega mikilvægum málum í tengslum við þá sem þurfa mest á því að halda að við hugsum til þeirra.