145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.

763. mál
[11:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér erum við að greiða atkvæði um heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju. Um það hefur verið góð umræða, bæði í hv. fjárlaganefnd og sömuleiðis í þingsal og meðal ýmissa aðila í þjóðfélaginu. Umræðan hefur hins vegar að stærstum hluta fjallað um aðra þætti, það sem snýr að Landeyjahöfn, en þrátt fyrir að þetta mál sé gott mun það ekki leysa vanda Landeyjahafnar. Það er annað og sérstakt mál. Mér hefur fundist vanta svolítið í umræðu um þessi mál að við ræðum þátt sem er mjög mikilvægur í öllum samgöngumálum sem eru öryggismálin. Við skulum hafa í huga að skipið sem við notum núna er 26 ára gamalt og uppfyllir ekki þá öryggisstaðla sem við gerum og eru gerðir til farþegaferja í þeim heimshluta sem við viljum bera okkur saman við.

Ég er ánægður með að náðst hefur góð samstaða í hv. fjárlaganefnd um að klára þetta mál og vonast til að góð samstaða náist um það í þingsal.