145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.

763. mál
[11:25]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að við séum að taka þetta mál til atkvæða og er ánægður að við séum að veita heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju. Það hefur lengi legið fyrir að slík ferja yrði að verða að veruleika og nú leggjum við af stað í þá vegferð. Eins og hefur komið fram í umræðunni og kom mjög skýrt fram í þeirri umræðu sem fór fram í gær er vandi Landeyjahafnar ekki leystur og við í umhverfis- og samgöngunefnd höfum ákveðið í sameiningu að taka það mál til gagngerrar skoðunar og munum því um leið og þing kemur saman næsta haust fara rækilega yfir það mál.

Þessi nýja ferja mun engu að síður létta á málunum og vonandi gera það að verkum að fleiri ferðir verði mögulegar á milli Eyja og lands.