145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

skattar og gjöld.

667. mál
[11:42]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég styð þá tillögu sem hér kemur fram um lækkun tryggingagjalds, en ég sagði við 1. umr. málsins að mér fyndist skrýtið að hæstv. fjármálaráðherra ætlaði að fjármagna lækkun tryggingagjalds með að taka út samsköttun hjóna í staðinn. Það var ekkert annað. Það var verið að lækka tryggingagjaldið á fyrirtæki og auka skattbyrði á millitekjufólk í staðinn. Ég styð tillögu meiri hluta nefndarinnar um að þessi grein falli brott. Ég styð hana og tel að hún komi millitekjufólki vel og tel að hún komi sjómönnum alveg sérstaklega vel út af ýmsum ástæðum. Það sem er grundvallaratriði í þessu og mér finnst virðingarvert er sjálfstæði nefnda sem hefur verið að aukast sem kemur fram í þessari breytingu á stjórnarfrumvarpi.

En ég tók eftir því í gær að hæstv. forsætisráðherra hafði mikið um þetta að segja og sagði að þetta færi ekki óbreytt svona í gegn. Svo heyri ég líka í fjármálaráðherra sem talar um gatið sem myndast. Það er alveg rétt. Það mætti nota þessa peninga í ýmislegt annað í velferðarþjónustunni, það er alveg hárrétt, en hvað vill stjórnarmeirihlutinn (Forseti hringir.) í þessu máli? Hvað ætlar hann að gera? Ég veit hvað ég geri.