145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

skattar og gjöld.

667. mál
[11:46]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Þetta er ákvæði þar sem tryggingagjaldið er lækkað. Mér finnst mjög mikilvægt að halda því til haga að svigrúmið til lækkunar tryggingagjalds kemur auðvitað fyrst og fremst út af því að atvinnuleysi hefur minnkað, það þurfti að hækka tryggingagjaldið mjög mikið þegar atvinnuleysi fór upp og atvinnuleysi hefur fyrir nokkuð löngu minnkað niður í allt aðrar stærðir. Það er svigrúmið til að lækka tryggingagjald, það kemur ekkert annars staðar frá. Svo finnst mér mjög mikilvægt að árétta líka, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom inn á hér áðan, að lækkun tryggingagjaldsins á ekki að hafa áhrif á þau áform að bæta í Fæðingarorlofssjóð, hækka þakið þar og lengja bótatímabilið, og í raun undarlegt að frumvarp um það hafi ekki komið fram, vegna þess að ég taldi að hæstv. félagsmálaráðherra hefði boðað slíkt frumvarp hér fyrr. Það er búið að fara smánarlega með Fæðingarorlofssjóð. Ég vil árétta að farið er yfir það í meirihlutaáliti nefndarinnar (Forseti hringir.) að þessi lækkun á tryggingagjaldi hafi ekki áhrif á boðuð áform um breytingar á Fæðingarorlofssjóði til hagsbóta fyrir bótaþega.