145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

grunnskólar.

675. mál
[11:59]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í hjarta mínu er ég ekkert sérlega samþykk því að stefnt sé að einkavæðingu í grunnskólakerfinu. Hins vegar geri ég mér grein fyrir því sem þingmaður í kjördæmi þar sem hafa komið upp vandkvæði við að reka almennan grunnskóla og hefur orðið að semja við sjálfstætt rekna grunnskóla af tilteknum ástæðum að lífið er ekki alltaf svart/hvítt. Í nefndaráliti við þetta mál ásamt hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur áréttum við ákveðin sjónarmið um að mikilvægt sé að nemendur eigi alltaf val milli einkarekins og almennt rekins grunnskóla og að þeim sé ekki gert að greiða skólagjöld eða standa undir kostnaði ef þeir eiga ekki val. Síðan þarf auðvitað að huga að fjölmörgum atriðum sem lúta að starfskjörum og réttindum kennara. Ég er hins vegar fylgjandi ákvæðum í frumvarpinu sem lúta (Forseti hringir.) að starfsemi frístundaheimila og samþættingu (Forseti hringir.) þeirra við skólastarfið, þannig að ég mun greiða þeim ákvæðum atkvæði en sitja hjá að öðru leyti.