145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

útlendingar.

728. mál
[12:24]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er afskaplega ánægjulegt að standa hér í dag og að þingmannanefndin, ráðherra sem komið hefur að málinu og aðrir hafi borið gæfu til að fylgja eftir þeirri vinnu sem hófst á síðasta kjörtímabili undir stjórn þáverandi ráðherra, Ögmundar Jónassonar. Niðurstaðan er sú að í dag höfum við í höndunum frumvarp sem er miklum mun betra en þau lög sem í gildi eru. Það er það sem skiptir máli. Þetta er áfangi á réttri leið þar sem við erum meðal annars að bregðast við fólki sem er á flótta vegna stríðsátaka og annarra slíkra aðstæðna sem er mikilvægt að við sem velmegandi velferðarsamfélag tökum fagnandi á móti og styðjum við með öllum þeim hætti sem við mögulega getum.

Við eigum að hafa mannúð að leiðarljósi í þessum málum og við eigum að vera í fararbroddi, hv. þm. Brynjar Níelsson, gagnvart þeim þjóðum (Forseti hringir.) í þeim málum sem hér um ræðir og ganga lengra en nágrannaþjóðirnar af því að við getum það og höfum færi til þess. Það er það sem skiptir máli. Ég vil að lokum þakka (Forseti hringir.) nefndarformanni og öðrum þeim sem komið hafa að málinu, (Forseti hringir.) nefndarritara og ráðuneytinu fyrir gott starf. — Virðulegi forseti. Ég komst mjög seint að. Ég leyfi mér að fara fram úr.