145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

húsaleigulög.

399. mál
[12:40]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka framsögumanni málsins, Silju Dögg Gunnarsdóttur, kærlega fyrir alla hennar vinnu. Ég vil sömuleiðis þakka velferðarnefnd fyrir gott samstarf hvað þetta mál varðar. Þar sem ég horfi til hæstv. innanríkisráðherra vil ég líka fá að þakka ráðuneyti hennar samstarfið. Eins og kom fram í máli hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur felst veruleg réttarbót í frumvarpinu sem snýr að stöðu leigjenda við nauðungarsölu. Við höfum öll séð umfjallanir um þá erfiðu stöðu sem leigjendur hafa verið í hingað til við nauðungarsölu eigna sem þeir hafa leigt.

Ég vil nefna annað atriði sem ég tel að muni skipta verulega miklu máli í því að bæta réttarstöðu bæði leigjenda og leigusala en það er að hér er lagt til að álit kærunefndar húsamála verði bindandi, sem þau hafa ekki verið hingað til. Verið er að skerpa á því að að sjálfsögðu eigi að fara eftir þeirri niðurstöðu sem kærunefndin kemst að í ágreiningsmálum.