145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

ný skógræktarstofnun.

672. mál
[12:47]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp sé að verða að lögum og er þakklátur fyrir að hafa fengið að taka þátt í þessari vinnu; hún hefur verið skemmtileg og fróðleg og tel ég um mikið framfaraskref í skógrækt að ræða. Þingið hafði áður lagt fram þingsályktunartillögu sem lagði til enn frekari aðgerðir til að efla skógrækt sem ég held að við eigum að halda áfram að vinna að. En ég tel þetta vera gott fyrsta skref sem við getum svo haldið áfram að vinna að, en þar var talað um frekari sameiningar eins og hér hefur komið fram.

Ég vil leggja áherslu á það að með nýrri skógræktarstofnun er hugsunin að aðstoða skógarbændur og aðra við að auka úrvinnslu og markaðssetningu. Með tíð og tíma á starfsemi skógræktarstofnunar að dragast saman og minnka smátt og smátt eftir því sem skógarbændur sækja í sig veðrið. Tel ég það mjög mikilvægt í þessu máli og tek undir það með hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur að samstaðan skiptir miklu máli og samvinnan, að það verði virkt.