145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

ný skógræktarstofnun.

672. mál
[12:48]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er fagnaðarefni að fá að standa hér og sjá að þetta er að verða að lögum. Það er hægt að standa vel að sameiningu stofnana. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir hennar starf að þessari vinnu. Ég vil þakka nýjum skógræktarstjóra, hvernig hann hefur tekið á málum eftir að hann var ráðinn og talað við sína starfsmenn. Það er ekki oft sem maður er gripinn á förnum vegi af starfsmönnum, þegar verið er að sameina stofnanir, sem lýsa yfir ánægju sinni. Ég vil líka þakka hv. umhverfis- og samgöngunefnd fyrir hennar vinnu, svo og þingheimi. Ég held að við séum að gera mjög gott með þessari sameiningu og það geti orðið öðrum að fyrirmynd, en skógræktin er mjög mikilvæg í margvíslegum tilgangi, ekki síst til þess að sporna gegn loftslagsbreytingum.