145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

lögreglulög.

658. mál
[12:52]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að þetta mál er komið á lokastig í meðferð í þinginu. Það er rétt, sem komið hefur fram, að það er nauðsynlegt að ræða um aðhald og eftirlit með stofnunum samfélagsins sem fara með opinbert vald og mikilvægt að það sé gert án þess að með nokkrum hætti sé verið að ala á tortryggni í garð þessara stofnana. Það eru gömul sannindi og ný að allar stofnanir, hverju nafni sem þær nefnast, þurfa aðhald. Ég held að það skref sem stigið er með þessu frumvarpi sé mikilvægt.

Ég ætlaði líka að geta þess að á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins hefur verið rætt um að eiga frekara samráð um þróun þessara mála, auðvitað með aðkomu allsherjarnefndar sem er sá vettvangur þar sem málefni lögreglunnar eru sérstaklega til umræðu, en við höfum einnig óskað eftir samtali við innanríkisráðherra og innanríkisráðuneytið um þau mál.