145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

viðbótarsamningur við Norður-Atlantshafssamninginn um aðild Svartfjallalands (Montenegró).

788. mál
[14:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að mótmæla þeim skýringum sem hv. þingmaður gefur á eigin afstöðu og afstöðu síns flokks í þessum efnum. Ég vil bara undirstrika að þrátt fyrir að Atlantshafsbandalagið hafi verið opið bandalag en ekki lokaður klúbbur þá hefur aðkoma eða aðild nýrra aðildarríkja jafnan átt sér langan aðdraganda og hefur átt sér rót í því að viðkomandi ríki hafa sóst eftir því að komast þar inn, hafa álitið að það væri mikilvægt eins og ég sagði áðan út frá öryggishagsmunum sínum, út frá því að þau vilja vera virkir þátttakendur í samstarfi vestrænna ríkja. Frumkvæðið að því leyti hefur alls ekki komið frá Atlantshafsbandalaginu og þar hefur frekar verið tregða. Menn hafa sett skilyrði og gert ákveðnar kröfur áður en nýjum aðildarríkjum er veitt aðild. Þegar við tölum um útþenslu Atlantshafsbandalagsins verðum við að hafa í huga hvaðan það frumkvæði kemur. Það stafar af því að ríki sem telja að staða þeirra í heiminum sé ekki trygg með einhverjum hætti telja að öryggis síns sé best gætt með því að eiga aðild að bandalaginu.