145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

rannsókn á erlendri þátttöku í kaupum á 45,8% eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. o.fl.

791. mál
[14:32]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég var að bíða með að biðja um orðið því að ég taldi að einhverjir af flutningsmönnum þessarar tillögu mundu taka til máls í síðari umr. Málið virðist vera afar brýnt vegna þess að verið er að taka það hér í gegnum þingið á minna en viku. Það var tekið úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á fimmtudaginn og svo var það rætt á þriðjudaginn eins og um alvarlegt mál væri að ræða, sem álykta þyrfti um sem fyrst. En svo er ekki og svo er það komið hér til síðari umr. án þess að fara til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, án þess að gestir séu kallaðir til, án þess að þeir sem voru á vettvangi þegar atburðirnir gerðust séu kallaðir til. Eins og fram hefur komið í þessu máli er lagt til að farið verði í rannsókn á 13 ára gömlu máli sem er að öllu leyti fyrnt. Það á upptök sín í því — sýnir hvað Alþingi er komið í skrýtna stöðu — að það er huldumaður sem á fund með umboðsmanni Alþingis með ávítur, dylgjur og hugleiðingar um að eitthvað hafi gerst fyrir 13 árum sem þurfi rannsóknar við. Það leiðir af sér að umboðsmaður Alþingis skrifar skýrslu, mætir á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og þá ákveður nefndin í heild sinni að leggja það til að hefja rannsókn.

Þetta mál snýst um að rannsaka erlenda þátttöku í kaupum á 45,8% eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands fyrir 13 árum. Það vill nú þannig til, virðulegi forseti, að mikið er til af þingskjölum um þetta mál þegar þetta var gert, m.a. fyrirspurn frá formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hv. þm. Ögmundi Jónassyni; hann sendi skriflega fyrirspurn til þáverandi viðskiptaráðherra um þetta atriði. Ég var síðast að lesa þetta í gær. Fyrirspurnin er mjög ítarleg og ekki síður svarið sem hv. þm. Ögmundur Jónasson fékk á þessum tíma, árið 2006, og þar var vísað í mikil gögn sem ríkisendurskoðandi hafði gefið út og finna má á heimasíðu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2006 undir flipanum „annað“. Það er því svolítið skrýtið að nú 13 árum eftir að þessir atburðir gerðust, að vísu einungis tíu árum eftir að hv. þm. Ögmundur Jónasson fékk svar við fyrirspurnum sínum, skuli þetta mál vera komið inn í þingið undir hans forustu sem formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Það er afar einkennilegt, sérstaklega í ljósi þess að hv. þm. Ögmundur Jónasson var ráðherra á síðasta kjörtímabili. Ég hef reynt í nokkuð mörg ár að koma á dagskrá þingsins rannsókn á einkavæðingu bankanna hinni síðari, sem ég fékk að mæla fyrir í gær. En því miður er ég ekki í rétta vinahópnum hér í þinghúsinu vegna þess að þeirri tillögu var beint til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar en þessi tillaga er komin á dagskrá þingsins til afgreiðslu; það er afar einkennilegt.

Það er rökstutt í þessari þingsályktunartillögu að þetta mál skuli vera komið á dagskrá, þ.e. að þessi sérafmarkaða rannsókn byggi á tillögu sem var samþykkt hér í þinginu árið 2012, um að hefja einu sinni enn rannsókn á einkavæðingu bankanna hinni fyrri. Það hefur ekki verið framkvæmt vegna þess að við höfum reynslu af rannsóknarnefndum, hvað varðar umfang og fjármagn til þeirra. En þegar atkvæðagreiðslan frá því máli er skoðuð er mjög undarlegt að svo virðist vera hér á Alþingi Íslendinga, sem ekki þekkist í nágrannaríkjunum, að rannsóknir af þessu tagi séu notaðar í pólitískum tilgangi. Ég sagði í þingræðu í gær að sú rannsóknartillaga hefði verið samþykkt með einungis 28 greiddum atkvæðum. En það er ekki rétt. Þegar ég fór að skoða málið betur sá ég að sú rannsókn var einungis samþykkt með 24 atkvæðum. Þeir þingmenn sem sitja enn á þingi, sem samþykktu þá rannsókn, eru hv. þingmenn Árni Páll Árnason, Helgi Hjörvar, Katrín Jakobsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Valgerður Bjarnadóttir. Aðrir þingmenn eru farnir af þingi, voru kosnir út eða hafa hætt af eðlilegum ástæðum, en það eru einungis sjö þingmenn sem sitja á þingi nú sem samþykktu þessa tillögu 2012. (ÖS: Sumir þeirra samþykktu hana ekki.) Sumir þeirra — þakka þér fyrir, hv. þm. Össur Skarphéðinsson — samþykktu hana ekki. Ég átti eftir að geta þess hér í framhaldinu að það voru sem betur fer nokkrir þingmenn sem samþykktu hana ekki, greiddu ekki atkvæði, voru með fjarvist eða voru fjarverandi. En það var enginn sem treysti sér til að greiða atkvæði á móti þessu á sínum tíma.

Þetta er veruleikinn, virðulegi forseti, sem við stöndum frammi fyrir. Lítill minni hluti þingmanna getur óskað eftir því að Alþingi fari í viðamikla rannsókn á atburðum sem gerast í þessu samfélagi, lítill minni hluti þingmanna. Ég hef talað fyrir því að það væri a.m.k. meiri hluti þingmanna sem þyrfti að ljá slíkri tillögu atkvæði sitt, svo að ég tali nú ekki um að það sé aukinn meiri hluti, því að þá er engin hætta á því að verið sé að nota pólitískt vald til að ná sér niðri á pólitískum andstæðingum sínum. Merkilegt, þegar ég viðraði þetta viðhorf hér í ræðu fyrr í vikunni brást einn hv. þingmaður mjög illa við því. Hver skyldi sá þingmaður hafa verið? Jú, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði um að slíkt væri algjör firra og slíkt ætti ekki að þurfa. Ég er bara að varpa ljósi á þetta vegna þess að sú þingsályktunartillaga sem nú er til umræðu byggist á þessari samþykkt þingsins frá 2012. Það er mjög einkennilegt að þingið skuli láta blanda sér í svona mál, að ekki sé talað um umboðsmann Alþingis sem hefur allar rannsóknarheimildir og getur farið af stað með sjálfstæða rannsókn ef honum þykir þurfa og ef hann fær ábendingar um slíkt. Hann hefur frumkvæðisrannsóknarskyldu eins og við vitum. En hér var farin sú leið að huldumaður kom á fund umboðsmanns Alþingis og það leiddi af sér að umboðsmaður Alþingis var boðaður á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar undir forustu hv. þm. Ögmundar Jónassonar með mikla skýrslu þar sem lagt var til að farið yrði í þessa rannsókn; afar einkennilegt, virðulegur forseti.

Þessi þingsályktunartillaga fjallar um mest rannsakaða málið á Íslandi, líklega frá lýðveldisstofnun. Árið 2006 fór einstaklingur í þessu samfélagi sem situr nú á þingi, hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason, mikinn í fjölmiðlum og var með ákveðnar fullyrðingar og dylgjur varðandi það að eitthvað hefði verið óeðlilegt í þessu máli. Það leiddi til þess að ríkisendurskoðandi, Sigurður Þórðarson, fór í veigamikla rannsókn á málinu til að kanna þetta, kallaði til sín aðila, gaf þeim sem að málinu stóðu kost á því að skila inn gögnum; eðlilega, fagleg vinnubrögð. Þau má, eins og ég sagði áðan, finna á vef ríkisendurskoðanda undir flipanum „annað“. Það er á þremur slóðum: Í fyrsta lagi er það svar við fullyrðingum Vilhjálms Bjarnasonar eða réttara sagt afsvar, að ekkert óeðlilegt hefði fundist. Svo er á tveimur öðrum slóðum að finna fylgiskjöl sem eru 46, virðulegi forseti. 46 fylgiskjöl voru birt með þessari rannsókn og það kom í ljós að ekkert óeðlilegt væri þar að finna. Í framhaldi af því sendir hv. þm. Ögmundur Jónasson fyrirspurn til viðskiptaráðherra, sem var byggð upp í svipuðum erindagjörðum og fyrirspurn Vilhjálms Bjarnasonar. Þar kom fram að ekkert óeðlilegt hefði heldur verið að finna. En það dugar greinilega ekki til. Í rannsóknarnefnd Alþingis sem Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, sat í — var einn af þremur nefndarmönnum — var rannsókn á einkavæðingu bankanna hinni fyrri rannsökuð mjög mikið, eðlilega, enda hafði rannsóknarnefndin víðtækar heimildir, þær víðtækustu sem hafa verið veittar hér á landi, meira að segja þegar sakamál eru meðtalin. Í VI. kafla birtist niðurstaða þeirrar rannsóknar, á 71 blaðsíðu. Þar kom ekkert óeðlilegt í ljós heldur. Þess vegna er svolítið skrýtið að umboðsmaður Alþingis, sem á að vera vammlaus maður — vammlaus gagnvart pólitík, vammlaus gagnvart dægurþrasi — skuli leggja til þessa rannsókn, raunverulega leggja til rannsókn á að rannsaka sína rannsókn sem fór fram varðandi fall bankanna. Það er afar einkennileg staða í lýðræðisþjóðfélagi.

Það hefði kannski farið betur á því að huldumaðurinn sem kom þessum upplýsingum fram við umboðsmann Alþingis hefði bara gefið sig upp við formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Kannski er það bara sami maðurinn. Hvað veit ég? Við fáum ekkert að vita. Ég hef kallað eftir því að fá að vita hver þessi huldumaður er, sem hefur lagt til þessa rannsókn. Það er hulin leynd. Þegar ég spurði að því í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hvers vegna stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fengi ekki að vita hver huldumaðurinn væri talaði umboðsmaður Alþingis um að það þyrfti að herða mjög lögin varðandi þá sem gefa upplýsingar, herða mjög lögin varðandi uppljóstrara. Á hvaða leið erum við, virðulegi forseti? Á hvaða leið erum við sem ríki, þegar málum er svona komið? Á hvaða leið erum við sem Alþingi að það sé hægt að vinka einhvers staðar úti í bæ, leggja til rannsókn og það er komið hér á fimm dögum inn í Alþingi og til afgreiðslu að það eigi að hefja rannsókn? Hvaða fyrirmynd er verið að skapa hér, virðulegi forseti? Út af hverju fær þetta svona greiða leið hér inn í þingið, einhverjar dylgjur frá huldumanni úti í bæ? Hvað er hér í gangi, virðulegi forseti?

Þetta lítur þannig út fyrir mér að það sé verið að misnota allar stofnanir Alþingis, allt frá umboðsmanni, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, þingsköp, Alþingi sjálft, þingmenn, með því að ljá þessu atkvæði. Er það svona samfélag sem við viljum búa í? Ég segi þetta í ljósi þess að ég hef barist fyrir því í ein fimm ár að fá í gegnum Alþingi Íslendinga rannsókn á einkavæðingu bankanna hinni seinni. Hvaða smjörklípa er þetta sem er verið að rétta þingmönnum? (Gripið fram í.) Hvers vegna er verið að gera þetta með þessum hætti?

Sem betur fer, virðulegi forseti, mistókst spunameisturum þessarar tillögu hrapallega í för sinni í þetta sinn, því að þessi þingsályktunartillaga hefur gefið mér færi á því að benda á hráskinnaleikinn sem fer fram hér í þinginu, að það sé ekki nokkur leið að fá því hreyft að hefja rannsókn á einkavæðingu bankanna hinni seinni í tíð síðustu ríkisstjórnar þar sem valdi var misbeitt, ríkissjóður settur í hættu og fleira sem kemur vonandi fram í dagsljósið núna á sumardögum — þá er tekið upp hér antikmál sem gerðist fyrir 13 árum sem er löngu fyrnt. Það hljóta allir að sjá að hér er verið að misbeita valdi. Mér finnst það miður á hvaða stað Alþingi er sett í þetta sinn. Svo er það besta í öllu saman að það er ekki einu sinni hægt að benda á sakarefnið. Ég hef kallað eftir því að fá að vita hvað það er nákvæmlega sem á að rannsaka. Þá er það bara leyndarmál og enginn virðist vita það, enda erfitt að finna nál í heystakki í svo rannsökuðu máli og hvað það er sem á eftir að rannsaka. Nei, nei, Alþingi er hér að samþykkja þingsályktunartillögu sem kemur frá huldumanni og enginn veit hvað á að rannsaka því að svo mikið af gögnum liggur fyrir í málinu. Það veit enginn hvað á að rannsaka. Samt á að skipa nefnd, sem einn maður á sæti í, um að fara enn einu sinni ofan í þetta mál. Hvaða fíflagangur er þetta, virðulegi forseti? Af hverju er ekki hægt að upplýsa þingmenn um það hvað það er sem er órannsakað í þessu máli sem snýr að eignarhlut þessara aðila í Búnaðarbanka Íslands? Af hverju er ekki hægt að segja það? Hvers vegna þessi feluleikur? Hvað á þessi eini maður sem skipar þessa rannsóknarnefnd að rannsaka? Viðkomandi aðili hefur ekki hugmynd um það nema það séu einhverjar bakgrunnsupplýsingar, jafnvel upplognar sakir. Hvað veit ég, fyrst ekki er hægt að birta það hér í þingskjalinu eða segja þingmönnum frá því hvað á að rannsaka?

Þessi þingsályktunartillaga byggist á dylgjum, svo að ekki sé meira sagt, jafnvel lygum, huldumanns úti í bæ. Og Alþingi Íslendinga er að fara að samþykkja hana. Hvaða fordæmi gefur það til framtíðar, virðulegi forseti? Ef þingmanni eða þingmönnum dettur í hug að ásaka einhvern í samfélaginu og fær til þess stuðning þingmanna, sem sitja jafnvel með þingmanninum í pólitísku liði eða ríkisstjórn, þá er hægt að misnota Alþingi á þann hátt að fara fram með rannsókn. Lærðum við ekki neitt af Hafskipsmálinu, virðulegi forseti, þar sem saklausir menn voru hnepptir í varðhald að ósekju út af pólitískum ofsóknum (Gripið fram í.) vinstri manna? (Gripið fram í.) Átti ekki að læra eitthvað af Hafskipsmálinu, virðulegi forseti? Ég hélt að þjóðin hefði verið í nógu miklum brotum eftir það mál sem dæmi. En hér er búið að draga það upp. Sömu persónur og leikendur líklega, alla vega í ákærandasætinu. Það er nú bara þannig, virðulegi forseti.

Ég harma þetta mál mjög mikið, biðst afsökunar á því fyrir hönd þingsins, sem þingmaður, að það skuli vera hægt að elta fólk í samfélaginu út yfir gröf og dauða. Út yfir gröf og dauða, með fullri virðingu fyrir þeim sem látnir eru og hafa setið hér í þinginu og skilað góðu starfi fyrir landið allt. Hér erum við komin af stað, þingmenn, með sambærilega tillögu á meðan bleiki fíllinn í stofunni, stóra málið sem þarf að ræða, stendur keikur og má ekki ræða, þ.e. einkavæðing bankanna hin síðari. Þetta er sorglegt mál, sýnir kannski á hvaða stað Alþingi Íslendinga er, sýnir á hvaða stað við erum varðandi traust í samfélaginu, að Alþingi Íslendinga sjálft skuli leggja til rannsókn á 13 ára gömlu máli, það sýnir hvar við erum stödd. Ég harma þetta, virðulegi forseti. En hér streyma þingmenn í salinn og bráðlega verður atkvæðagreiðsla. Við skulum sjá hvernig atkvæði falla, en það er undarlegt að mál af þessu tagi skuli vera komið hér til lokaafgreiðslu án umræðu, án gestakomu í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, án þess að taka til greina þá aðila sem hafa staðið að rannsóknum, án þess að heyra þeirra sjónarmið. Vammlausir menn úti í samfélaginu, sem hafa gert sitt besta til þess að upplýsa málið, hafa ekki einu sinni tækifæri til að koma og útskýra sitt mál eða bera af sér sakir, því að málinu er hraðað svo mjög í gegnum þingið að halda mætti að allt fari á verri veg ef það verður ekki samþykkt. Það er hluti af þinglokasamkomulagi sem ég skil ekki. Hvað með þá aðila sem störfuðu hjá embætti ríkisendurskoðanda 2006, af hverju er þeim ekki gefinn kostur á að koma fyrir nefndina og útskýra sitt mál og útskýra með matskeið fyrir þeim aðilum sem standa að þessu máli hvernig sú rannsókn fór fram og hvernig sú niðurstaða var fengin, ef ekkert athugavert fannst í málinu? En það er kannski illskiljanlegra að sá sem ber þetta upp í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er umboðsmaður Alþingis, Tryggvi Gunnarsson sem sat í rannsóknarnefnd Alþingis sem kannaði orsakir falls íslensku bankanna; hann ber þetta fram. Það er óskiljanlegt að hann skyldi ekki hafa komið þessum sjónarmiðum sem hann hefur vitneskju um á framfæri þá. Það hefði kannski ekki verið neinn akkur fyrir nefndina að fá hann á fund sinn vegna þess að hann ber þetta mál uppi frá þessum huldumanni og ekki er upplýst hvað á að rannsaka. Hræðileg staða fyrir Alþingi Íslendinga.