145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

húsnæðisbætur.

407. mál
[15:11]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil enn á ný koma hingað og þakka velferðarnefnd kærlega fyrir hennar vinnu að þessu máli. Þetta er hinn helmingurinn af þeim stóru breytingum sem við erum að gera á stöðu þeirra sem hafa minnst á milli handanna á leigumarkaðnum. Húsnæðisbæturnar ná hins vegar yfir ívið stærri hóp. Við erum líka að huga að leigjendum sem eru á almennum leigumarkaði þannig að hér er ekki aðeins verið að tala um stuðning sem snýr að þeim sem munu búa í almennum íbúðum heldur er þetta víðtækari skilgreiningin í þessu frumvarpi.

Eins og kom fram í umræðunni erum við líka að huga að því að ekki er lengur bara horft til fjölda barna heldur fjölda heimilismanna þannig að það að barnið verður 18 ára á ekki að breyta aðstöðu fjölskyldna. Við erum að jafna stöðu foreldra óháð hvort þeir séu með forsjá barns eða ekki og horfumst þannig í augu við það hvernig samfélag okkar er að breytast sem og líf fjölskyldna. Í þessu frumvarpi má finna mjög margar góðar breytingar og enn á ný þakka ég framsögumanni málsins, Elsu Láru Arnardóttur, og þeim öðrum sem komu að málinu áður en það kom inn í þingið kærlega fyrir (Forseti hringir.) þessa vinnu.