145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

rannsókn á erlendri þátttöku í kaupum á 45,8% eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. o.fl.

791. mál
[15:26]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég tek undir að það þarf að velta við hverjum steini varðandi einkavæðingu bankanna. Hér er verið að fara fram með rannsókn á sölu og einkavæðingu bankanna hinni fyrri. Ég og Framsóknarflokkurinn styðjum það, sérstaklega í ljósi þess að hér eru uppi væntingar um að fljótlega verði hægt að fara í skoðun á einkavæðingu bankanna hinni seinni. Þar á eftir að velta við mörgum steinum og skoða hvað bjó að baki þegar bankarnir voru afhentir kröfuhöfum á síðasta kjörtímabili á einni nóttu án nokkurrar einkavæðingarnefndar eða annarra faglegra sjónarmiða.

Ég ítreka aftur, virðulegi forseti, að ég styð þessa tillögu með þá von í brjósti að þingheimur taki því vel að fara fljótlega í rannsókn á einkavæðingu bankanna hinni síðari vegna þess að ég talaði sjálf fyrir því að hægt yrði að skoða þær tvær saman.

Nú er búið að segja A í þessu máli, að rannsaka fyrri einkavæðinguna einu sinni enn, og þá vonast ég til þess að hin rannsóknin (Forseti hringir.) fari fljótlega af stað líka.