145. löggjafarþing — 125. fundur,  2. júní 2016.

útlendingar.

728. mál
[15:43]
Horfa

Hanna Birna Kristjánsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég ítreka þakklæti mitt til þeirra sem komu að þessu máli. Það misfórst hjá mér að þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir hennar vinnu, sérstaklega formanninum. Ég veit að við áttum okkur á því sem höfum komið að málaflokknum en kannski átta sig ekki allir á því hvað við erum að taka risastórt og mikilvægt skref, að Ísland sé að nálgast þessi verkefni með þeim hætti að allir í þessum sal séu nokkuð sáttir, ekki endilega alsælir. Þetta er ótrúlega stórt verkefni, sérstaklega í máli sem veldur svo miklum hindrunum og erfiðleikum mjög víða.

Þá ítreka ég skoðun mína í þessum málaflokki sem er sú að menn hætti að skilgreina þessi mál sem vandamál. Fjölbreytileiki er tækifæri, fjölbreytileiki er nokkuð sem öll samfélög eiga að vilja hafa. Í mínum huga er það versta tegundin af forræðishyggju þegar við ætlum að setja okkur í þau spor að ákveða hvert fólk vill flytja eða hvar það á að búa.

Í mínum huga er þetta risastórt frelsismál, risastórt samstöðumál og risastórt skref fyrir Ísland að taka forustu í þessum málaflokki. Til lukku með það. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)