145. löggjafarþing — 125. fundur,  2. júní 2016.

stjórn fiskveiða.

786. mál
[15:55]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Páll Jóhann Pálsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá atvinnuveganefnd með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/?2006, með síðari breytingum (byggðakvóti og framlenging bráðabirgðaákvæða). Nefndarálitið skýrir sig sjálft.

Björt Ólafsdóttir og Kristján L. Möller voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með nokkrum breytingum. Aðalbreytingin, þ.e. nýmælin í breytingunum, er að á eftir 4. gr. komi ný grein, svohljóðandi:

Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Ráðherra er heimilt að draga allt að 5,3% frá viðmiðun leyfilegs heildarafla í makríl vegna makrílveiða íslenskra skipa árið 2017 og ráðstafa til aðgerða sem tilgreindar eru í 5. mgr. 8. gr. laganna á fiskveiðiárinu 2016/2017. Ráðherra er heimilt að skipta þessu aflamagni makríls í aðrar tegundir til að leitast við að tryggja tegundasamsetningu aflamagns í samræmi við 6. mgr. 8. gr. laganna.

Undir álitið rita Jón Gunnarsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Haraldur Benediktsson, Ásmundur Friðriksson, Páll Jóhann Pálsson, Þorsteinn Sæmundsson og Þórunn Egilsdóttir.