145. löggjafarþing — 125. fundur,  2. júní 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[16:07]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Eins og fram hefur komið hjá framsögumanni rita ég undir nefndarálitið með fyrirvara en ég styð þetta mál og er í öllum aðalatriðum afar ánægður með lendinguna í því. Fyrirvarinn er almenns eðlis og lýtur annars vegar að því að tryggilega gangi eftir fyrirheit um fjármögnun kerfisbreytingarinnar og undirbúning heilsugæslunnar sem hér á í hlut og hins vegar áskil ég mér rétt til þess að hafa skoðanir á því hvernig þeir auknu fjármunir væru best nýttir til þess að ná fram markmiðunum um sanngjarna dreifingu greiðslubyrðarinnar í þessum efnum. Kem aðeins nánar að því síðar.

Þegar frumvarpið kom fram voru menn í sjálfu sér settir í nokkurn vanda, frú forseti, sumir hverjir, því að í því eru tvö mjög góð element sem ég fagna báðum og við í þingflokki Vinstri grænna gerum innilega. Það er annars vegar að stíga skref, í sjálfu sér ekki stór eða mjög kraftmikil en þó fyrstu skrefin, inn í almennilega þjónustustýringu eða tilvísanafyrirkomulag í íslenska heilbrigðiskerfinu sem betur hefði verið gert fyrir áratugum síðan og það byggt upp þannig að í anda heilbrigðislaganna, eins og hann hefur reyndar verið lengi, væru innstæður fyrir því að heilsugæslan væri myndugur fyrsti viðkomustaður í heilbrigðiskerfinu. Þar væru málin sorteruð upp og vísað áfram til frekari og sérhæfðari og dýrari úrræða eftir því sem þörfin krefði. Það hefur okkur ekki lánast í neinum mæli eða alla vega ekki nægilega ríkum mæli. Þarna var þetta og það gladdi mann.

Í öðru lagi og að sjálfsögðu að setja þök á þann óheyrilega kostnað sem þeir bera sem verða fyrir því að þurfa að nota sér heilbrigðisþjónustuna mikið, langveikir eða með tiltekna sjúkdóma, og getur farið upp úr öllu valdi. Það er búið að vera algjörlega ótækt hversu misjafnt byrðunum er dreift í þeim efnum og nánast tilviljanakennt eftir því hvaða sjúkdóm menn fá eða hvernig aðstæður eru hvernig menn koma út úr þeim samskiptum við kerfið.

Þetta var hið góða. En því miður var ljóst að fengjust engir fjármunir til að innleiða breytingu yrði hún mjög íþyngjandi fyrir mjög fjölmennan hóp þeirra sem tækju á sig kostnaðinn af því að þökin væru sett og kostnaðurinn skorinn ofan af þeim þúsundum notenda sem hafa borið mjög mikinn kostnað. Það sem verra var, skoðun leiddi í ljós að aldraðir og öryrkjar mundu bæta á sig talsverðum hluta þeirra byrða eða um eða yfir hálfum milljarði króna. Hins vegar kom svo mjög fljótt í ljós og lá svo sem fyrir hjá þeim sem til þekktu að heilsugæslan er ákaflega vanbúin og er þröngur stakkur sniðinn til þess að takast af myndugleik á við þetta nýja og aukna hlutverk. Þetta varð enn ljósara í umfjöllun nefndarinnar og eftir gestakomur.

Því er ekki að leyna að m.a. þessa erfiðu stöðu heilsugæslunnar reyndu ýmsir ónefndir að nota til að drepa málið, að þetta væri hið mesta óráð því að heilsugæslan réði ekki við þetta (ÖS: Hverjir eru það?) og fundu því allt til foráttu. Það voru ekki bara sjálfstætt starfandi sérfræðingar úti í bæ einir, hv. frammíkallandi, heldur jafnvel stofnanir undir hæstv. heilbrigðisráðherra sem frekar gripu til þeirra röksemda en hitt. (Gripið fram í.) En sem betur fer myndaðist samstaða um það í velferðarnefnd að láta þetta ekki slá sig út af laginu og við héldum áfram að skoða málið og ræða það og byrjuðum að smita þeim skilaboðum að sjálfsögðu að þetta mundi ekki takast nema auknir fjármunir fengjust í hvort tveggja. Það væri allt of þungt að taka 1.200–1.500 millj. kr. kostnað, ef ekki meira, sem hlytist af því að setja þök þó að jafn há væru og 95 þús. kr. á ári sem yrði dreift á hina almennu notendur og verulegur hluti þess lenti á elli- og örorkulífeyrisþegum.

Það var því afstaða okkar, mín sem er nefndarmaður þingflokks Vinstri grænna, að við gætum ekki staðið að afgreiðslu málsins við óbreyttar aðstæður. Það gerðum við hæstv. heilbrigðisráðherra rækilega ljóst sem og innan nefndarinnar. Við vorum föst fyrir í þessari afstöðu. Þannig stóðu málin satt best að segja fram undir kvöld í gær að við hefðum þá frekar kosið að málið yrði ekki afgreitt og biði haustsins. Píratar voru sömuleiðis mjög staðfastir í þessari afstöðu. En gærdagurinn var nokkuð drjúgur til starfa og eftir allveruleg fundarhöld, þar á meðal mín og framsögumanns og hæstv. heilbrigðisráðherra og síðan kom hæstv. heilbrigðisráðherra inn í nefndina, fæddist sú góða niðurstaða að þegar á þessu ári kæmu 300–400 millj. kr. í fjáraukalögum inn í heilsugæsluna til að undirbúa strax þær nauðsynlegu ráðstafanir, mannaráðningar og skipulag sem þyrfti til að hún gæti af fullum myndugleik tekið að sér þetta hlutverk og að það gengi vel. Vandinn við að samþykkja tilvísunina án fjármuna bara prinsippsins vegna, hættan í því hefði verið sú að það hefði ekki gefist nógu vel, að heilsugæslan hefði ekki ráðið nógu vel við það jafnvel þótt menn reyndu að nota símþjónustu og aðrar slíkar aðferðir. Það er óendanlega mikilvægt að þetta takist vel þegar lagt verður af stað, því að nægir munu verða til að reyna að naga það niður. (Gripið fram í: Ekki Össur.) Þess vegna þarf þetta að takast vel.

Það er mjög ánægjulegt að við skulum hafa tryggingu fyrir því að í fjáraukalögum í haust komi 300–400 millj. kr. pottur inn í málið sem hæstv. heilbrigðisráðherra getur ráðstafað inn í heilsugæsluna þar sem þörfin er mest og biðlistar eftir viðtölum við heimilislækna lengstir o.s.frv., þannig að heilsugæslan verði í góðum færum til að ráða við þetta 1. febrúar næstkomandi.

Sömuleiðis fengum við að við teljum sem nefnd fullnægjandi tryggingar fyrir því að í fjárlögum ársins 2017 verði viðbótarfjárveitingar inn í málaflokkinn sem nægi til þess að hið almenna kostnaðarþak fari ekki yfir 50 þús. kr., og öryrkjar og aldraðir greiði 2/3 af því eða ígildi þess í nýjum fjármunum. Ég legg áherslu á það, frú forseti, að ég vil frekar líta á skuldbindinguna, loforðið, fyrirheit um nýja fjármuni ef hæstv. heilbrigðisráðherra hlustar, sem ígildi þess að við næðum þakinu niður í 50 þús. kr. Ef það skyldi koma í ljós að blönduð leið að einhverju leyti væri þrátt fyrir allt betri til að dreifa þessum byrðum, segjum sem svo að afsláttur aldraðra og öryrkja yrði ekki bara 1/3 heldur helmingur og við nýttum stærri hluta fjármunanna í það sem leiddi kannski til þess að almenna þakið yrði 54 þús. kr. eða eitthvað svoleiðis, mætti skoða það. Það eru slíkir hlutir sem ég held að væri skynsamlegt að skoða þannig að við reynum að fá sem besta útkomu úr þessu.

En ég tel að við höfum algerlega fullnægjandi tryggingar fyrir því að þetta gangi eftir, samanber orðalagið neðst í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Nefndin fagnar yfirlýsingu ráðherra og telur sig hafa fullvissu fyrir því að auknir fjármunir komi til í fjáraukalögum þessa árs“ — þá erum við að tala um 300, 400 milljónirnar inn í heilsugæsluna — „og fjárlögum ársins 2017 sem leiði til þess að heilsugæslan verði styrkt og almennar hámarksgreiðslur sjúkratryggðra verði ekki hærri en 50.000 kr. á ári.“

Það er reikningsdæmi sem við getum námundað svo vel að við finnum auðveldlega út úr því að rétt verði gefið, þ.e. að þeir fjármunir hafi skilað sér.

Frú forseti. Hér er þar af leiðandi á ferðinni ákaflega mikilvæg lögskýring, lögskýring í skilningi þess að hún er ekki að útskýra einstaka lagagrein heldur er hún að útskýra grundvöllinn sem lögin verða sett á og þau fyrirheit sem þingnefndin hafði þegar hún lauk málinu og sendi það inn í salinn og mælir með því að það sé stutt og samþykkt. En fyrst og síðast er þetta pólitísk völdun í þverpólitísku samkomulagi allra flokka um að svona skuli þetta vera og verða þegar nýja kerfið kemur til framkvæmda á öndverðu næsta ári. Það er ákaflega ánægjulegt.

Ég held að svo kunni að fara, frú forseti, og leyfi mér að gerast svolítið spámannslegur, ekki endilega spámannlega vaxinn heldur bara spámannslegur, að hér (Gripið fram í.) séu að verða merkilegri tímamót í sögu íslenskra heilbrigðismála en margir átta sig á. Hin umdeilda tilvísunarskylda sem lengi hefur verið reynt og áður hefur verið reynt að koma á — og vita þeir allt um það, kratarnir, hvað það getur tekið í sem kunna sögu þess flokks — sé að koma hér inn í lög og til framkvæmda í þverpólitísku samstarfi allra flokka. Það er nokkuð sögulegt. Ég hrósa að sjálfsögðu hæstv. heilbrigðisráðherra Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir kjark hans í þessu máli og hlut hans í því.

Ég vil meina að velferðarnefnd eigi nokkurt lof skilið og við, sem stóðum staðföst í fæturna og svo maður tali nú mannamál og sé ekkert að fara í kringum heita grautarskál með það, hjálpuðum auðvitað hæstv. heilbrigðisráðherra að ná út úr fjármálaráðherra þeim fjármunum sem þurfti til þess að þetta yrði ásættanlegt. Það er bara að orða á mannamáli það sem hér gerðist. Ég er ánægður með niðurstöðuna, frú forseti.