145. löggjafarþing — 125. fundur,  2. júní 2016.

samstarf Íslands og Grænlands.

23. mál
[17:45]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég hef á leið minni í ræðustól verið hvattur til þess af m.a. föður hússins, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni sem hér hefur mesta reynslu, að halda eftir því sem ég best get tímamótaræðu um samstarf Íslands og Grænlands. Ég ætla hins vegar aldrei þessu vant ekki að verða við ósk hv. þingmanns. Í stuttu máli ætla ég einungis, herra forseti, að þakka fyrir afgreiðslu á málinu. Ég ætla sérstaklega að flytja hv. formanni utanríkismálanefndar, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þakkir mínar fyrir lipurð við að ljúka málinu. Þó má segja að enginn ágreiningur hafi verið um það og ég held að það sé farsælt fyrir samstarf Grænlands og Íslands að málinu skuli nú vera siglt til þessarar hafnar.

Á sínum tíma samþykkti Alþingi mjög ítarlega stefnu um norðurslóðir. Framkvæmdarvaldið hefur síðan fylgt henni út í ystu æsar. Segja má að hér séum við að beina kastljósi okkar að tilteknum parti af hinu hánorræna samstarfi, þ.e. hvernig best verði fyrir komið í framtíðinni samstarfi Íslands og Grænlands. Ég vænti þess að framkvæmdarvaldið muni síðan í framhaldi af þessu eftir bestu getu og eftir því sem leiðir finnast reyna að hnika fram því samstarfi.

Grænlendingar eru á nokkuð hraðri leið til aukins sjálfræðis. Á sínum tíma fór þar fram þjóðaratkvæðagreiðsla um vilja þeirra í þeim efnum. Það var mjög eindregin niðurstaða. Yfir þrír fjórðu voru þeirrar skoðunar að Grænlendingar ættu að taka sér aukið sjálfstæði. Við erum þeirra næstu nágrannar. Við höfum margt að miðla til þeirra. Í þessari þingsályktunartillögu er bent á ýmsa hluti sér í lagi á sviði sjávarútvegs. Það er eini punkturinn sem ég ætla að reifa hér alveg sérstaklega.

Í ljós kemur, herra forseti, að þegar skoðað er andvirði þess afla sem Grænlendingar fá upp úr sjó er það miklu minna en Íslendingar fá fyrir hverja þyngdareiningu þegar búið er að koma því á heimsmarkað. Ég held að samstarf Íslands og Grænlands gæti haft mikinn hag í för með sér fyrir báðar þjóðir á sjávarútvegssviðinu. Grænlendingum er féskylft að því marki að þeir verða með einhverjum hætti úr sínum eigin náttúruauðlindum að verða sér úti um fjármagn sem svarar til að minnsta kosti þess sem þeir fá árlega frá Dönum. Þeir þurfa þar að auki að verða sér úti um fjármagn til að byggja upp velferðarsamfélag á Grænlandi.

Niðurstaða okkar sem komum að þessari þingsályktunartillögu í góðu samráði við íslenska sjávarklasann er þessi: Ef samstarf okkar og Grænlendinga gæti leitt til þess að þeir næðu þeim áfanga að fá jafn mikið og við fyrir hvert kíló af fiski upp úr sjó komið á markað þá mundi það fara langleiðina með að skapa þau verðmæti sem þeir þurfa á að halda til að taka næstu skref til sjálfstjórnar og sjálfstæðis. Það skiptir mjög miklu. Ástæðan er ekki síst sú að í Grænlandi hafa menn skipst í fylkingar um hvar á að afla þess fjár. Sumir hafa viljað fara þá leið að vinna það úr auðlindum í jörðu. Það er mjög umdeilt. Að hluta til má segja að þingsályktunartillagan beini sjónum að þeim möguleikum sem felast í samstarfi Íslands og Grænlands á sjávarútvegssviðinu.

Það er líka ákaflega margt sem við gætum af þeim þegið. Það er útlistað í þingsályktunartillögunni. Ég ætla tímans vegna ekki að fara neitt frekar yfir það, einungis flytja þingheimi og utanríkismálanefnd þakkir mínar fyrir það hversu langt þetta mál er komið.