145. löggjafarþing — 126. fundur,  2. júní 2016.

gjaldeyrismál o.fl.

810. mál
[19:50]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ekki leyni ég því að ég gnísti tönnum undir þessari ræðu hæstv. fjármálaráðherra og furða mig ekki á því að hann var heldur lúpulegur a.m.k. fyrri partinn og undir blálokin. Hér kemur hæstv. ráðherra og talar fjálglega um nauðsyn þess að Seðlabankinn fái stýritæki til þess að hamla gegn vaxtamunarviðskiptum. Allt svo, það eru tvær vikur síðan að ég spurði hæstv. fjármálaráðherra hvort ekki væri rétt að samþykkja heimild til slíkra stýritækja samhliða frumvarpinu sem við samþykktum um daginn þegar við vorum að skilgreina aflandseyjarnar. Þá talaði hæstv. fjármálaráðherra eins og það væru alls konar önnur tæki, sem hann drap á undir lok sinnar ræðu, sem væru miklu effektífari en þetta, talaði þetta heldur niður. Jú, það væri stýring á opinberum fjármálum og eins og hann sagði áðan hvernig peningastefnan talar saman við þau. Þá rak engar sérstakar nauðir til þess að fara með þetta mál.

Núna korteri fyrir þinglok kemur hæstv. ráðherra, hendir frumvarpi hérna inn og kemur fram við þingið eins og það sé orðið að einhvers konar stimpilpúða fyrir hann. Mér ofbjóða þessi vinnubrögð.

Ég hef sagt það áður að stjórnarandstaðan, a.m.k. ég, vill vinna með ríkisstjórninni til þess að undirbúa afnám gjaldeyrishafta. En svona vinnubrögð eru eiginlega varla þolandi, ég bara segi það. Mér finnst það miður að hæstv. ráðherra vinni svona af því að það er búið að þaulspyrja hann. Ég hef frá áramótum spurt hann þremur sinnum út í það hvort svona tæki þurfi ekki. Nú kemur hann með það. Sjálfsagt er að þingið skoði þetta. En er þá ætlunin að við tökum þetta á einhverjum örstuttum fundi hjá efnahags- og viðskiptanefnd og engir komi til þess að skoða málið nema þeir sem sömdu það?

Ein efnisspurning til hæstv. ráðherra, reyndar tvær: (Forseti hringir.) Gerir þetta frumvarp ráð fyrir því að hægt sé að setja neikvæða vexti? Í öðru lagi: Eru þessar reglur (Forseti hringir.) tilbúnar og verða þær sýndar á eftir í efnahags- og viðskiptanefnd?