145. löggjafarþing — 126. fundur,  2. júní 2016.

gjaldeyrismál o.fl.

810. mál
[19:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka fram að það er úr vöndu að ráða fyrir þingið eftir að svona mál lítur dagsins ljós vegna þess að þegar fram koma hugmyndir um að setja reglur sem ætlað er að tempra hreyfingar fjármagns inn og út úr landinu, skammtímahreyfingar, þá getur það strax haft áhrif á markaði og hegðun aðila þar. Þingið getur ekki svo hæglega haft mál eins og þetta lengi til skoðunar. Þannig að mín orð um aðdragandann og það sem ég hefði svo gjarnan viljað geta gert, að taka málið til skoðunar í sérstakri utanþingsnefnd helst eða í samstarfi þingflokkanna og vega þar og meta þá kosti sem við stöndum frammi fyrir, hefði þurft að gerast utan þings og í miklum trúnaði. Það var það sem ég vakti athygli á strax í framsöguræðu minni að hefði verið mjög gott að geta gert. En aðstæðurnar að mínu (Forseti hringir.) áliti bjóða ekki upp á það núna. (Forseti hringir.) Það hefði ég gert ef ég hefði látið það vera að koma með málið. Ég mat það (Forseti hringir.) mikilvægara fyrir heildarhagsmunina að málið kæmi fram (Forseti hringir.) og við settum reglurnar.