145. löggjafarþing — 126. fundur,  2. júní 2016.

gjaldeyrismál o.fl.

810. mál
[20:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi þau vandkvæði sem kunna að vera því samfara að setja reglur af þessu tagi þá vil ég vísa til þess að samkvæmt fræðunum sýnist mér að eftir því sem gjaldmiðilssvæðin eru minni og markaðurinn grynnri geti hættan verið meiri og getan til þess að hafa áhrif eitthvað í samræmi við það, þ.e. að það geti verið meiri vandkvæðum bundið fyrir slík myntsvæði að setja slíkar reglur. En þær þykja þó vera skilvirkt tól sem við getum ekki litið fram hjá að mínu áliti. Það er þess vegna sem þetta kemur núna fram.

Síðari spurningin (Gripið fram í.) varðar áhættuna af magni; það er eiginlega ómögulegt að leggja mat á það. En þegar horft er til þess hversu háar tölur falla undir nýju lögin, hversu margir geta tekið þátt í útboðinu og eftir atvikum komið hringinn og aftur inn, (Forseti hringir.) og til viðbótar vitum við að innlendir aðilar eru að setja upp fjárfestingarsjóði sem kannski er beint sérstaklega að þessu, þá erum við einfaldlega að horfa á (Forseti hringir.) gríðarlegar fjárhæðir sem eru meginástæða þess að við teljum rétt að bregðast við.