145. löggjafarþing — 126. fundur,  2. júní 2016.

aðgerðaáætlun gegn súrnun sjávar á norðurslóðum.

160. mál
[20:12]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Haraldur Einarsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég flyt hér nefndarálit með breytingartillögu frá umhverfis- og samgöngunefnd um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun gegn súrnun sjávar á norðurslóðum.

Með tillögunni er lagt til að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp til að vinna aðgerðaáætlun um viðbrögð við súrnun sjávar á norðurslóðum. Starfshópurinn rannsaki hvaða áhrif loftslagsbreytingar hafa á lífríki hafsins í kringum Ísland og til hvaða aðgerða þurfi að grípa til að sporna við þeim og að umhverfis- og auðlindaráðherra geri Alþingi grein fyrir niðurstöðum starfshópsins árlega eða oftar ef þurfa þykir.

Gestir og umsagnaraðilar nefndarinnar voru almennt jákvæðir gagnvart efni tillögunnar. Súrnun sjávar á norðurslóðum getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir Íslendinga sem reiða sig mikið á sjávarútveg. Súrnun hafsins breytir vistkerfi þess og getur haft skaðleg áhrif á fiskstofna og fæðukeðju hafsins. Á fundum nefndarinnar kom fram að súrnun hafsins væri afleiðing af útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Vart væri hægt að líta á súrnun sjávar sem einangrað fyrirbæri heldur þyrfti að horfa á það í víðara samhengi með tilliti til útblásturs og mengunar og þá sérstaklega útblásturs á koldíoxíði.

Á fundum nefndarinnar kom fram að auka þyrfti fjármagn til málaflokksins svo hægt yrði að rannsaka áhrif súrnunar hafsins í teymisvinnu fleiri aðila, t.d. háskólasamfélagsins, Hafrannsóknastofnunar, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, og að byggja þyrfti upp og efla rannsóknaraðstöðu líkt og Þekkingarsetur Suðurnesja í Sandgerði.

Nefndin tekur undir þau sjónarmið að efla þurfi rannsóknir á súrnun sjávar. Að öðru leyti vísa ég í nefndarálit sem fylgir með frumvarpinu.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Tillögugreinin orðist svo:

Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að skipa starfshóp sem vinni skýrslu um hvernig efla megi hafrannsóknir hér á landi með tilliti til súrnunar hafsins og þeirra breytinga sem verða á lífríki þess. Í starfshópnum verði m.a. fulltrúar Háskóla Íslands, Hafrannsóknastofnunar, Umhverfisstofnunar og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Starfshópurinn skili ráðherra skýrslu fyrir árslok 2016 sem ráðherra kynnir fyrir Alþingi.

Undir nefndarálit þetta rita hv. þingmenn Höskuldur Þórhallsson, formaður nefndarinnar, Katrín Júlíusdóttir, sá sem hér stendur, Birgir Ármannsson, Elín Hirst, Ásta Guðrún Helgadóttir, Svandís Svavarsdóttir, Róbert Marshall og Vilhjálmur Árnason.