145. löggjafarþing — 126. fundur,  2. júní 2016.

uppbygging áningarstaða Vegagerðarinnar við þjóðvegi.

150. mál
[20:19]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Haraldur Einarsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég fjalla um nefndarálit frá umhverfis- og samgöngunefnd um tillögu til þingsályktunar um uppbyggingu áningarstaða Vegagerðarinnar við þjóðvegi.

Með tillögunni er innanríkisráðherra falið að skipa starfshóp um áningarstaði við þjóðvegi sem geri tillögu um uppbyggingu, hlutverk og þróun áningarstaða Vegagerðarinnar við þjóðvegi landsins, m.a. með tilliti til salernisaðstöðu. Starfshópnum er í tillögunni einnig falið að meta hvort fjölga beri áningarstöðum Vegagerðarinnar og gera tillögur um forgangsröðun í uppbyggingu áningarstaða og meta kostnað við uppbyggingu þeirra.

Eins og kemur fram í greinargerð tillögunnar eru áningarstaðir Vegagerðarinnar 469 talsins vítt og breitt um landið en eru þeir misjafnir að umfangi. Áningarstaðir gegna mikilvægu öryggishlutverki með fjölgun ferðamanna á þjóðvegum landsins, en borið hefur á því að ferðamenn stöðvi bíla sína úti í vegkanti til að virða fyrir sér náttúru og landslag, en af slíku skapast hætta fyrir vegfarendur.

Á fundi nefndarinnar kom fram að óheppilegt væri að skipa starfshóp um þetta tiltekna verkefni þar sem nú þegar væri unnið að því innan stjórnsýslunnar að vissu leyti. Nefndin tekur undir þetta. Í ljósi þess að nú er komið sumar og ferðamönnum farið að fjölga verulega er ljóst að grípa þarf til aðgerða strax.

Á fundi nefndarinnar upplýsti vegamálastjóri um áætlun sem unnin var hjá Vegagerðinni um að koma upp bráðabirgðasalernisaðstöðu á u.þ.b. 30 stöðum. Ljóst er að slík aðstaða er ekki til framtíðar og mikilvægt að huga að framtíðaruppbyggingu viðunandi og viðvarandi salernisaðstöðu. Hins vegar verður að bregðast við ástandinu nú og leggur nefndin því til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og verði hluti af vinnu að öryggismálum á vegum Stjórnstöðvar ferðamála með það að markmiði að bráðabirgðaaðstöðu verði komið upp í sumar og að því búnu verði hugað að varanlegri uppbyggingu áningarstaða.

Nefndin leggur til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Undir nefndarálitið skrifa hv. þingmenn Höskuldur Þórhallsson, Katrín Júlíusdóttir, sá sem hér stendur, Birgir Ármannsson, Elín Hirst, Ásta Guðrún Helgadóttir, Svandís Svavarsdóttir, Róbert Marshall og Vilhjálmur Árnason.