145. löggjafarþing — 127. fundur,  2. júní 2016.

gjaldeyrismál o.fl.

810. mál
[22:24]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mikilvægasta nýmælið í þessu frumvarpi felst í því að gefa Seðlabankanum tæki til að binda fjármagn sem hér flæðir inn og getur haft neikvæð áhrif á efnahagsstærðir. Við vitum af fenginni reynslu í aðdraganda hruns hversu hættulegt óheft innflæði kviks fjármagns getur verið og það er von okkar eftir þær upplýsingar sem gefnar hafa verið að hér sé um að ræða tæki sem geti skilað fullnægjandi árangri í þessu efni. Ef svo reynist ekki vera kann að þurfa að sækja frekari lagaheimildir til frekari aðgerða en hér er í öllu falli verið að búa til möguleika á því að verjast innflæði af þessum toga. Það er vel og mjög mikilvægt í framhaldinu, nú þegar vaxtamunur milli Íslands og annarra landa fer vaxandi.