145. löggjafarþing — 129. fundur,  8. júní 2016.

kjaramál Félags íslenskra flugumferðarstjóra.

815. mál
[15:20]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri mér fulla grein fyrir því að þingmönnum finnst tíminn vera skammur, allur aðdragandi þessa frumvarps er skammur, en haldinn var ríkisstjórnarfundur vegna þessa rétt fyrir hádegi. Ég hitti ásamt hæstv. forsætisráðherra stjórnarandstöðu til að gera grein fyrir þessu máli, en auðvitað ekki til að fara að lesa það nákvæmlega yfir á þeim fundi, en gerðum grein fyrir meginefni málsins og tilurð lagasetningarinnar. Ég veit að starfsmenn þingsins reyndu innan þessa knappa tíma að gera allt sem þeir gátu til að hraða skjalavinnslu í málinu. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að alltaf er betra að meiri tími sé en minni til að fara yfir einstök mál. En ég held að við þessar aðstæður, þegar verið er að grípa til slíkra aðgerða, þá vilji það oft verða svo að tíminn til undirbúnings reynist frekar knappur og það er mikilvægt að við höfum þá tækifæri síðar í dag til að fjalla um málið í tiltekinni nefnd, þeirri nefnd sem málið fer til, og síðan áfram í þingsal.