145. löggjafarþing — 129. fundur,  8. júní 2016.

kjaramál Félags íslenskra flugumferðarstjóra.

815. mál
[15:21]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja það að þau vinnubrögð eru einfaldlega orðin óþolandi að við fáum endalaust þingskjöl á síðustu mínútu. Það er verið að þröngva málum í gegnum þingið án þess að maður hafi náð að lesa þau í gegn. Mér finnst slík vinnubrögð ólíðandi, sérstaklega þegar við tölum um jafn mikilvægt mál og núna. Ég veit ekki alveg hversu mikil áhrif það hefði haft á framvindu þessa máls að fresta þingfundi um hálftíma, klukkutíma, einfaldlega til þess að geta farið yfir frumvarpið, til að byrja með. Sjö mínútur eru einfaldlega ekki nóg. Það er algjörlega óþolandi að þurfa endalaust að vinna við slíkar kringumstæður. 20, 30, 40 mínútur, klukkutími, það hefði strax verið skárra. Það þarf að útbýta svona löguðu með smáfyrirvara svo maður geti setið undir 1. umr. og haft einhverja skoðun á málinu.