145. löggjafarþing — 129. fundur,  8. júní 2016.

kjaramál Félags íslenskra flugumferðarstjóra.

815. mál
[15:25]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er deila sem á sér stað milli Samtaka atvinnulífsins og Félags íslenskra flugumferðarstjóra. Bein aðild ríkisins að þessari deilu er ekki fyrir hendi eins og hv. þingmaður eflaust veit. Hv. þingmaður sagði að stjórnvöldum væri fyrirmunað að leysa úr deilum, en þannig eru mál nú vaxin með þessa deilu. Það hvílir sú skylda á stjórnvöldum að tryggja að almannahagsmunir séu virtir. Það er mat stjórnvalda, og okkar sem að þessu máli komum, að deilan sé farin að hafa slík áhrif að ekki verði við það búið lengur. Hins vegar er í frumvarpinu gert ráð fyrir því, og það finnst mér skipta mjög miklu máli, að viðsemjendur hafi tíma til þess að setjast niður og reyna til þrautar að ná samningum. Ef það tekst ekki þá mun koma til kasta gerðardóms.

Ég hygg að ef stjórnvöld létu hjá líða að stíga inn í þessa deilu á þessum tímapunkti væru stjórnvöld þvert á móti að vanrækja þær skyldur sínar að gæta að almannahagsmunum. Það er í því ljósi sem þetta frumvarp er lagt fram. Síðan er það nú svo að ég er alveg viss um að Félag íslenskra flugumferðarstjóra mun að sjálfsögðu sinna sínum skyldum eins og það hefur gert. Vegna þess atriðis sem hv. þingmaður nefnir tel ég enga ástæðu fyrir mig að gefa mér eitthvað annað hér í þessum stól og ég hef enga trú á öðru.