145. löggjafarþing — 129. fundur,  8. júní 2016.

kjaramál Félags íslenskra flugumferðarstjóra.

815. mál
[15:28]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Ég ítreka það sem ég sagði í fyrra andsvari varðandi þetta atriði, en ég hlýt að vekja aftur athygli hv. þingmanns á þeim skyldum sem á stjórnvöldum hvíla, sem er að halda uppi reglu í landinu og tryggja að almannahagsmunir séu virtir. Það kann að vera að stundum skapist þær aðstæður að ríkið þurfi að gera hluti sem eru ekki endilega það sem menn vilja gera, en það hlýtur að liggja í augum uppi fyrir öllum þingheimi að það að grípa inn í svona deilur er alltaf neyðarráðstöfun. Þetta er ekki eitthvað sem neinn maður gerir með léttum huga. Menn hljóta að skilja að svo er. Þetta er eitt af því sem hvílir á ríkinu þegar svona aðstæður koma upp. Ef ríkið bregst ekki við er kominn tími til að spyrja sig hvort ríkið sé að vanrækja skyldur sínar.