145. löggjafarþing — 129. fundur,  8. júní 2016.

kjaramál Félags íslenskra flugumferðarstjóra.

815. mál
[15:36]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er að sjálfsögðu á mína ábyrgð að leggja þetta frumvarp fram. Ég hefði ekki lagt það til né heldur stæði ég hér og talaði fyrir því nema af því að ég tel mig hafa vissu fyrir því að rétt sé að gera þetta; annars hefði ég ekki lagt frumvarpið fram. Á endanum þarf það alltaf að vera mat þess sem ber málið uppi hvort aðstæður séu þannig að fara skuli þessa leið. Það mat hefur farið fram. Það mat hef ég lagt á málið sjálf, þetta er mín niðurstaða.

Ég verð að viðurkenna að ég er aðeins farin að gleyma hvað hv. þingmaður sagði. Töluverðir og verulegir hagsmunir — að sjálfsögðu erum við ekki hér að ræða um stétt sem hefur líf manna í höndum sér, eins og við þekkjum til dæmis úr heilbrigðiskerfinu. Hér hefur verið minnst á vinnudeilur á þessu kjörtímabili og þær verið margs konar. En deilur í öðrum starfsgreinum geta haft slík áhrif á almannahagsmuni, þeir geta verið margs konar, að ástæða sé til að grípa inn í. Þess vegna verður matið alltaf að vera heildstætt. Það er mjög erfitt að taka einn tiltekinn þátt út úr og horfa bara á hann. Það er í því ljósi, í ljósi heildstæðs mats, sem þessi niðurstaða er fengin.

Ég vil ítreka það hér við þingheim að það er hvorki létt fyrir mig né aðra að bera slíkt mál uppi, en stundum er það bara þannig að það þarf að gera slíka hluti.