145. löggjafarþing — 130. fundur,  8. júní 2016.

kjaramál Félags íslenskra flugumferðarstjóra.

815. mál
[21:09]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það hefur komið í ljós í umfjöllun í nefnd í dag að þetta mál er hið mesta óráð og hluti af mjög óheillavænlegri þróun sem hófst í rauninni með lagasetningunni á undirmenn á Herjólfi. Þetta grefur undan samningsvilja, þetta grefur undan því að menn reyni með afgerandi hætti að koma til móts við kröfur, að mætast, búa til samkomulag, semja, eins og eðlilegt er að gert sé. Ekki hefur tekist að sýna fram á tvö mjög veigamikil atriði í þessu mál í dag, í fyrsta lagi almannahagsmunina sem verið er að verja, hvernig þeir eru í húfi, og í annan stað hvernig þetta mætir aðgerðum flugumferðarstjóra sem hafa falist í nokkurs konar yfirvinnuþaki eða yfirvinnubanni. Gangi þessi lög eftir, náist ekki að semja fyrir þann frest sem gert er ráð fyrir í lögunum og komist gerðardómur að niðurstöðu er ekkert sem hægt er að gera til að krefja þá einstaklinga sem ekki kæra sig um það og eru ekki með það bundið í sínum samningum að vinna yfirvinnu. Það er engin yfirvinnuskylda hjá flugumferðarstjórum.

Það er að vísu alveg rétt að í 19. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur er gert ráð fyrir því að það teljist vinnustöðvun eða verkbann þegar um samhæfða félagslega aðgerð er að ræða og menn sinna ekki venjulegri vinnu, en í ljósi þeirrar stöðu og þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað í starfsumhverfi flugumferðarstjóra á undanförnum einum til þremur árum er um slíka stökkbreytingu á yfirvinnuálagi að ræða að það er ekki hægt að skilgreina það sem eðlilega vinnu.

Þetta er marklaus aðgerð. Hún mun ekki ná tilætluðum árangri, hún grefur undan meginstoðum samfélagsins og þeim grundvallarrétti launafólks að nýta verkfallsréttinn, nýta aðgerðir á vinnumarkaði til að ná fram hagstæðum kjörum. Þess vegna er eina rökrétta niðurstaðan sem hægt er að komast að hér í dag — menn hafa komist að þeirri niðurstöðu áður í svona málum — sú að hægt væri að vera hlutlaus eða sitja hjá við þessar aðgerðir þegar ríkisstjórnin hefur ítrekað á þessu kjörtímabili gripið inn í vinnudeilur, en nú er mál að linni. Þetta hefur leitt til mjög óheillavænlegrar þróunar, grafið undan samningsvilja á markaði og það er ekki annað hægt en að vera á rauðu, vera á móti þessu og segja nei.