145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

skuldaleiðrétting og lækkun vaxtabóta.

[15:16]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Hér er rökstuðningnum svolítið snúið á haus. Hægt er að segja söguna með talsvert öðrum hætti. Skuldaleiðréttingin tókst afburðavel og hefur verið einn stærsti þáttur í því lækka skuldir heimilanna. Fyrir örfáum árum, 2012, skulduðu heimilin í landinu 125% af vergri landsframleiðslu og voru með skuldsettustu heimilum í hinum vestræna heimi. Á síðasta ári voru skuldir heimilanna komnar niður í 84% af vergri landsframleiðslu og komnar niður fyrir það skuldahlutfall sem verið hefur hér á landi síðan fyrir aldamót. 2003 og 2004 var það um 91% og taldist býsna gott.

Þessi lækkun er að stærstum hluta til komin vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar með leiðréttingunni sem greidd var af kröfuhöfum bankanna.

Vaxtabætur eru hugsaðar til að borga fólki bætur sem skuldar of mikið í húsnæði sínu og því er ekki skrýtið þegar sú breyting hefur orðið á að eigið fé húseigenda hefur vaxið umtalsvert og á sama tíma hefur kaupmáttaraukning í landinu verið yfir 20%, sem er fáheyrð stærð, sé staða fólks öll önnur og að vaxtabætur lækki til samræmis.

Spyrja má hvort betra sé að koma til móts við fólks með því að auka eign þess í húsnæðinu, lækka skuldir og þar með greiðslubyrði til bankans eða hafa í hæstu hæðum skuldirnar og greiðslubyrðina og að ríkið þurfi að koma til hjálpar með vaxtabótum.

Stefna ríkisstjórnarinnar hefur verið skýr, hún er að auka (Forseti hringir.) eigið fé fólksins og það hefur tekist.