145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

áform um einkasjúkrahús.

[15:23]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég heyrði í hádegisfréttum að þessi fjárfestir biði eftir breytingartillögum frá stjórnvöldum við áform sín en þau áform hafa einfaldlega ekkert verið kynnt stjórnvöldum, þannig að ég held að mjög vandasamt sé að setja fram einhverjar breytingartillögur við einhver áform sem maður þekkir ekki. Það er því eitthvað brogað við þessa umræðu alla saman.

Þar sem hv. þingmaður spyr hvort ekki sé athugunarinnar virði að engar hindranir séu í íslenskri löggjöf við einhverjum áformum sem kunna að ógna stöðunni í íslenska heilbrigðiskerfinu er því til að svara að í 26. gr. laga um heilbrigðisþjónustu og í 6. gr. laga um embætti landlæknis eru ákveðnar girðingar. En það er hins vegar alveg ljóst að skerpa þarf á regluverkinu, reglusetningunni, því að ég tel nauðsynlegt að landlæknisembættið og ráðuneytið fari betur í gegnum lagarammann. Við höfum undirbúið það, ég og landlæknir, að setjast yfir það verk. Regluverkið var hins vegar metið þannig af starfshópi sem var settur á laggirnar árið 2012 að það væri ekkert í löggjöfinni sem skorti á til þess að láta þennan einkarekstur vinna með einhverjum skynsamlegum hætti.

Það er mjög umhugsunarvert að minni hyggju ef landlæknisembættið telur einhver áform ógna stöðunni í íslenska heilbrigðiskerfinu, að þá hafi landlæknisembættið ekki tæki til að vinna gegn slíkri ógn. Ég fellst ekki á þennan skilning og til þess höfum við mælt okkur mót, ég og landlæknir, til að fara í gegnum þessa reglusetningu. (Forseti hringir.) Það getur ekki verið með þeim hætti að kerfið hafi ekki neinar varnir ef stöðunni í heilbrigðiskerfinu er ógnað.