145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

áform um einkasjúkrahús.

[15:27]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ekki kann ég aðrar skýringar á því hvernig þessi umræða þróaðist en þær að mikill áhugi er á öllu sem viðkemur heilbrigðiskerfinu og mikill áhugi á því sem þar er að gerast. Í mínum huga var þessi umræða öll allan tímann hálfinnihaldslaus því að ekkert af þessu hafði verið birt okkur. Ég kann engar skýringar á því með hvaða hætti þetta mál vannst áfram með þvílíkum ólíkindum, sérstaklega um einnar viku skeið, í umræðu í fjölmiðlum. Það eru hins vegar ákvæði í lögum um heilbrigðisþjónustu og landlækni sem beinlínis eru orðuð þannig að áform sem þessi ber að tilkynna landlæknisembættinu, þ.e. fyrirhuguð áform um rekstur, þannig að það geti komið inn í á skynsamlegum og skikkanlegum tíma til að fylgjast með því hvernig það væri gert.

Ég ítreka enn og aftur að minn skilningur er að regluverkið sé með þeim hætti að embætti landlæknis hafi (Forseti hringir.) tæki til þess að grípa inn í áform aðila ef það metur stöðu heilbrigðiskerfisins ógnað.