145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

endurskoðun stjórnarskrárinnar.

[15:32]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Við í Bjartri framtíð höfum stutt þessa vinnu og hefðum reyndar stutt það ef hún hefði gengið hraðar og lengra. En við styðjum tillögurnar, eins og kom fram hjá fulltrúa okkar í nefndinni. Það eru mörg önnur mikilvæg mál í tillögum stjórnlagaráðs, eins og um jöfnun atkvæðisréttar, eins og um skýrar reglur um mögulegt framsal valdheimilda, eins og umgjörð um embætti forseta Íslands o.s.frv., sem er líka mikilvægt að við á Alþingi tökum til okkar vinnu og tökum, eins og hæstv. forsætisráðherra orðaði svo vel, orð nýkjörins forseta Íslands okkur til hvatningar. Ég hvet okkur til þess en minni á að samkvæmt starfsáætlun forseta Alþingis eru einungis (Forseti hringir.) 12 dagar til reiðu og sá fyrsti er í dag, þannig að það eru 11 dagar eftir. Það þarf því að hafa hraðar hendur ef við ætlum að gera eitthvað á þessu kjörtímabili.