145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

hlutverk LÍN.

[15:34]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra svolítið út í hvert hann telji að hlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna eigi að vera. Hvaða hlutverki á LÍN að gegna í íslensku samfélagi?

Nú er ég búin að lesa yfir frumvarp hæstv. ráðherra um breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna í allt sumar og hef reynt að átta mig á því hvaða hlutverki hann eigi að gegna í samfélaginu. Erum við að reyna að stuðla að jöfnuði til náms, jöfnuði til náms óháð því hvað fólk fær í laun eftir nám? Það eru ekki allar stéttir jafn vel launaðar og það má sér í lagi hugsa sér að leikskólakennarar, hjúkrunarfræðingar og fleiri stéttir sem teljast ekki til hálaunastétta, að fólk muni síður sækja í nám ef endurgreiðslubyrðin er hærri. Ég bara spyr, og mig langar að fá heildstætt svar, hver heildarsýn ráðherra er í þessum málaflokki.

Ég tel og það er minn skilningur á Lánasjóði íslenskra námsmanna að hann eigi að vera félagslegur jöfnunarsjóður. Og hann á ekki að vera félagslegur jöfnunarsjóður einungis þegar fólk er í námi. Það á ekki einungis að taka tillit þess þegar fólk er í námi heldur líka þegar fólk þarf að byrja að borga af lánum sínum.

Ég spyr: Hver er hugsjónin hjá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra í þessum málaflokki? Mér finnst það ekki vera skýrt. Vill hæstv. ráðherra að lánasjóðurinn komi jafnt í krónutölum talið fram við alla eða vill hann að sjóðurinn stuðli að félagslegu jafnrétti?