145. löggjafarþing — 132. fundur,  15. ág. 2016.

hlutverk LÍN.

[15:36]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina en vil vekja athygli á því að við munum ræða þetta mál ítarlega á morgun þar sem mælt verður fyrir frumvarpinu. Þá munum við hv. þingmaður geta átt orðastað og farið yfir þessi mál.

Ég vil strax svara því sem hv. þingmaður beinir til mín að ég held að við séum sammála um að sjóðurinn er félagslegur jöfnunarsjóður. Hann á að tryggja námsmönnum aðgengi að fjármagni þegar þeir fara í nám. Um leið er þetta líka fjárfestingartæki ríkisins, það er verið að fjárfesta í menntun, það er verið að setja styrki í núverandi kerfi til námsmanna til þess einmitt að hvetja til náms, ekki bara til að leysa þann vanda sem hv. þingmaður nefnir, sem er hinn félagslegi þáttur málsins, heldur er þetta líka viljayfirlýsing ríkisins um að menntun skiptir máli og að það eigi að fjárfesta í menntun.

Síðan er það spurning hvort núverandi fyrirkomulag lánasjóðsins sé sérstaklega félagslegt eða ekki. Það er alveg heilmikil umræða og við munum örugglega ræða um það, ég og hv. þingmaður, á morgun. Ég held að við séum sammála um að þetta sé megintilgangur sjóðsins, þ.e. hið félagslega jöfnunarhlutverk. Hvernig það síðan myndast hef ég bent hv. þingmanni og öðrum á að núverandi kerfi býr til dæmis til þá stöðu að ef skoðaðir eru 20 hæstu lánþegarnir fá þeir vel yfir hálfan milljarð að láni, svo við tökum sem dæmi af þeim sem lokið hafa námi. Þeir borga einungis lítinn hluta af þeim fjármunum til baka til ríkisins meðan aðrir fá mjög lítið. Af því að hv. þingmaður nefnir sérstaklega umönnunarstéttir og aðra sem fara í slíkt nám vil ég benda á og það kemur alveg skýrt fram í frumvarpinu og umsögnum um það að u.þ.b. 85% af þeim sem eru núna í námi og taka námslán munu annaðhvort hafa óbreytta eða lægri greiðslubyrði eftir að náminu lýkur í því kerfi sem er verið að leggja hér upp. Ég held að það sé ekki málefnalegt að leggja svo upp með að það frumvarp sem nú liggur fyrir þinginu geri það að verkum að þeir sem eru til dæmis að fara að læra að verða kennarar standi frammi fyrir verri kjörum (Forseti hringir.) hvað varðar námslánin.